Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 18:51:14 (461)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:51]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Umræðan hefur nú farið víðar en um sjálft frumvarpið sem hér er til umræðu en allt snertir það auðvitað málið sem sjávarútvegsráðherra er að leggja hér fram.

Það kom fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni áðan að lækkun eða niðurfelling veiðileyfagjalds er í raun og veru hækkun þegar upp er staðið því að reiknistuðlarnir eru einfaldlega þannig að þegar búið er að leggja saman og draga frá þá lítur út fyrir að veiðigjaldið hækki umtalsvert á milli ára, líklega um hærri upphæð en þá sem sögð er vera lækkunin.

Eins og ég sagði áðan í ræðu minni hef ég ekki verið svo hlynntur veiðigjaldi frá upphafi vegna þeirrar ástæðu að ég óttaðist það strax í upphafi, sem reyndar er að verða raunin núna, að veiðigjald mundi ýta undir þá kröfu þeirra sem væru að leigja að þeir eignuðust það sem þeir væru að leigja með tímanum, það myndaðist eignarréttur. Það vil ég ekki sjá. Ég vil að 1. gr. laga um stjórn fiskveiða verði gild og að við getum ævinlega gengið að því sem vísu að auðlind sjávar sé sameign þjóðarinnar en ekki séreign þeirra sem hafa peninga til að kaupa hana eða hafa einhvern tímann fengið hana afhenta.

Ég held að í sjálfu sér sé ágætissamkomulag, a.m.k. svona opinberlega, um eignarhaldið á auðlindinni en leigugjaldið og lögin hvetja til annars. Því hef ég gert athugasemdir við þetta veiðigjald á þeim rökum. Ég set mig ekki upp á móti þessari aðgerð, að lækka veiðigjaldið, komi það útgerðinni til bjargar. Það ætla ég ekki að gera.