Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 19:02:13 (468)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[19:02]
Hlusta

Þorvaldur Ingvarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er um margt merkileg umræða sem farið hefur fram um þetta ágæta frumvarp. Hv. 4. þm. Norðaust. varpar því fram að augljóslega sé það staðreynd að fiskur hefur minnkað í sjónum. Um það geta allir verið sammála, enginn deilir um það. Við vitum hins vegar ekki orsakir þess, hvort um er að ræða ofveiði af einhverjum orsökum, breytingar í náttúrunni, minnkað fæðuframboð o.s.frv.

En það er alveg ljóst að ef við lítum til annarra landa hvað varðar þorskveiðar, og sérstaklega hér við norðanvert Atlantshaf, þá hefur þorskurinn alls staðar hopað. Fyrst í Norðursjónum, svo í kringum Bretland, Noreg, Nýfundnaland o.s.frv. Hver er orsökin? Um það er líka deilt en reynslan í kringum heimsstyrjaldirnar sýndi okkur að þegar veiðin datt niður kom fiskurinn upp aftur.

Ég hef mestar áhyggjur af því að niðurskurður á þorskaflaheimildum dugi ekki til að byggja upp okkar ágætu stofna. Við vitum ekki hvað þarf til en ljóst er að við þurfum að grípa til verndaraðgerða. Hins vegar hefur þjóðarbúið oft séð það svartara. Við höfum gengið í gegnum hrun á mörkuðum kringum saltfisk, síldin hvarf og ég trúi því að við fáum tækifæri. Við eigum að nota þetta tækifæri til að byggja upp aðra atvinnuvegi.