Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 19:04:15 (469)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[19:04]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er rétt, sem kemur fram hjá hv. þm. Þorvaldi Ingvarssyni, að fiskunum hefur fækkað í sjónum. Það er alveg hárrétt og það er það sem við eigum að ræða um í þessu máli. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að fiskunum hefur fækkað, fiskstofnarnir hafa gefið eftir og við eigum að velta því fyrir okkur hvers vegna í ósköpunum það hefur gerst, þegar við höfum farið vel og nákvæmlega eftir þeim ráðum sem lögð hafa verið til.

Af hverju er niðurstaðan jafnslæm og hún er hjá okkur í dag? Eru vísindin ekki öflugri en þetta? Búum við ekki yfir nægilega mikilli þekkingu á náttúru sjávar, fiskstofnum, auðlindum sjávar og lífinu í sjónum, til að geta tekið ákvarðanir um þetta? Veiðarnar eru það eina sem við getum stjórnað að stærstum hluta til. Veiðiráðgjöfin hefur í áranna rás beinst að því fyrst og fremst að vernda smáfisk með öllum tiltækum ráðum og gripið hefur verið til ótal ráða við hönnun veiðarfæra, svæðalokana o.s.frv. til að reyna að vernda smáfisk. Það hefur verið útgangspunkturinn í allri ráðgjöf og menn hafa tekið því nokkuð þegjandi.

En það eru samt ýmsar efasemdir um þessa leið. Nú er sjávarútvegsráðherra að leggja til, síðast í þessari viku, að auka veiðar á smáfiski, að auka veiðar á smáýsu með reglugerðarbreytingum eða fella niður reglugerðir um að nota smáfiskaskilju á ýsuslóð og opna að nýju svæði uppi á grunnslóð til smáýsuveiða. Þannig að margt stangast á í þessum fræðum hjá okkur. Ég vil undirstrika að varðandi fiskifræðina og fiskstofnana er ekkert svart/hvítt. Þar spila margir hlutir saman.