Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 19:07:13 (471)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[19:07]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála því sem kom fram í andsvari hv. þm. Þorvalds Ingvarssonar, við verðum að fara vel með það sem hann kallar fjöregg þjóðarinnar sem eru fiskstofnarnir og þá sérstaklega þorskstofninn og þeir stofnar sem við nytjum. Um það snýst þetta mál. Enginn veit það sennilega betur en þeir sem starfa í sjávarútvegi hversu mikilvægt það er að varðveita fiskstofnana.

Þess vegna spyrjum við: Hvar hefur okkur mistekist? Hvernig stendur á því að markmið sem sett voru fyrir meira en 20 árum með stjórn fiskveiða, um að efla fiskstofna, um að auka atvinnu og um að auka hagkvæmni í útgerð, hafa ekki náðst? Við stefnum í þveröfuga átt. Að þessu þurfum við að spyrja okkur gagnrýnislaust. Við eigum hvorki að vanmeta ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hvað það varðar eða annarra sem koma að sjávarútvegi.