Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 19:09:22 (472)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[19:09]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við förum um víðan völl í umræðu um skerðingu á veiðileyfagjaldi. Á sínum tíma, þegar gjaldið var sett á, var um það mikill ágreiningur og sýndist sitt hverjum eins og fram hefur komið í ræðum manna. Menn nálguðust málið með misjöfnum hætti. Mörgum finnst þetta vera skattlagning á ákveðna atvinnugrein sem ekki þekkist á aðrar atvinnugreinar sem þó nýta náttúruauðlindir með einum eða öðrum hætti. Fram hefur komið að einhverjum hv. þingmönnum finnst þetta geta verið festing á eignarhaldi. Öðrum finnst þetta vera leiga til þjóðarinnar, leiga sem skal greidd sem veiðileyfi, veiðileyfagjald, og þannig var þetta hugsað.

Þrátt fyrir þennan ágreining náðu menn samkomulagi um þessa leið og hún er niðurstaðan. Við höfum lög um veiðileyfagjaldið sem hefur verið stigvaxandi. Á yfirstandandi fiskveiðiári er það, samkvæmt þeim tölum sem fyrir liggja, rétt rúmur milljarður og nær því en þeim 1.100 millj. sem hér voru nefndar fyrr í dag. Það er athyglisvert þegar rætt er um þetta gjald að á sínum tíma voru sjómenn og útgerðarmenn og þeir sem að greininni komu sammála um að veiðileyfagjaldið væri ekki af hinu góða og lögðust gegn því.

Skerðing á þorskkvóta á yfirstandandi fiskveiðiári hefur mikil áhrif. Hún hefur eðlilega hvað mest áhrif á sjávarbyggðirnar, hinar dreifðu byggðir sem byggja afkomu sína á fiskveiðum, útgerð og fiskvinnslu. Ég get þó ekki verið sammála vini mínum, hv. þm. Árna Johnsen, þegar hann ber þetta saman við það hvernig slík skerðing kæmi við höfuðborgarsvæðið. Ég vil biðja hv. þingmann um að fara ekki með málið í þann farveg. Við eigum ekki að gera þetta að einhverju ágreiningsmáli eða samanburðarmáli milli höfuðborgar og landsbyggðar. Þetta er mál sem hefur það víðtæk áhrif í samfélaginu að það snertir alla. Það hefur líka bæði bein og óbein áhrif á höfuðborgarsvæðinu. Það er á ábyrgð okkar þingmanna að komast að einhverri niðurstöðu í þessum málum og koma að sem víðtækustum stuðningi á meðan þetta tímabil gengur yfir. Við trúum því öll, eða flest skulum við segja, að við séum að breyta rétt. Við trúum því að við séum að fara í gegnum tímabundið ástand og að við munum sjá árangur skerðingarinnar að einhverjum tíma liðnum.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að bregðast við með því að fara í svokallaðar mótvægisaðgerðir og engin ástæða er til að ætla annað en að farið sé í þær aðgerðir af heilum hug. Sennilega hefur aldrei verið efnt til annarra eins aðgerða til að koma til hjálpar og bregðast við erfiðum aðstæðum eins og nú, enda er staða okkar þannig að við getum gert hluti af meiri myndarskap en oft áður.

Markmiðið með mótvægisaðgerðunum er að skapa fleiri atvinnutækifæri og efla annað atvinnulíf á meðan við förum í gegnum þessar þrengingar. Þær taka til mjög margra þátta í samfélaginu. Þær taka til flestra grunnstoða samfélagsins eins og samgangna, fjarskipta og skólamála og einnig eru sjóðir, sem eru hugsaðir til frekari aðstoðar, eins og Atvinnuleysistryggingasjóður og Byggðastofnun, efldir svo um munar svo að hægt sé að standa við bakið á þeim sem erfiðast eiga með fjárhagslegum stuðningi.

Það hefur líka komið fram að hluti aðgerðanna felst í auknum hafrannsóknum, menn eru að skoða hið margumtalaða togararall, rannsóknir á Grænlandsgöngum og á staðbundnum stofnum. Það er alveg rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Birni Val Gíslasyni, að Hafrannsóknastofnun hefur staðfest að það eru fleiri en einn þorskstofn við landið, það eru nokkrir stofnar. En Hafrannsóknastofnun hefur líka sagt að hlutdeild þessara staðbundnu stofna í heildarveiði sé mjög lítil. Þarna þurfum við frekari rannsókna við eins og á svo mörgum öðrum sviðum. Það er markmiðið að fara í þær núna.

Við ræðum um veiðigjald sem á að vera, samkvæmt þeim tölum sem áætlaðar eru fyrir yfirstandandi fiskveiðiár, rúmlega milljarður. Við ræðum tillögu hæstv. sjávarútvegsráðherra um að lækka eða fella niður veiðigjaldið af þorskveiðum á yfirstandandi ári sem mun gera um 275 millj. kr. Það mun, virðulegi forseti, þýða að gjaldið mun hækka um 275 millj. kr. á milli fiskveiðiára, úr 450 millj. kr. á síðasta fiskveiðiári í 725 millj. kr.

Það er þarna sem ég stoppa við. Ég vil ekki nálgast málið út frá ágreiningi um veiðigjaldið sem slíkt og tilverurétt þess. Við munum ábyggilega halda áfram að takast á um veiðigjaldið í framtíðinni. Við höfum mismunandi skoðanir á því hvort það er skattur, hvort það er veiðileyfagjald eða hvort það festi eignarhald útgerðarfyrirtækjanna eða þeirra sem hafa kvótann í sessi.

Ég vil nálgast þetta með öðrum hætti. Við erum að tala um atvinnugrein sem er að fara í gegnum einhverja dýpstu lægð sem hún hefur farið í gegnum með tilheyrandi áhrifum á allt samfélagið. Það er ákveðin mótsögn í því þegar við tökum okkur til og setjum milljarða króna í svokallaðar mótvægisaðgerðir sem eru ætlaðar til þess að hjálpa þessum sömu fyrirtækjum ásamt öðrum til að þau geti dregið eins mikið úr uppsögnum starfsfólks og frekast er unnt. Auka svigrúm þeirra til að takast á við þennan vanda. En á sama tíma erum við með veiðileyfagjaldinu að auka álögur á milli fiskveiðiára um 275 millj.

Ég vil skora á hv. þingmenn að hugsa þetta út frá þessari hlið málsins og vil hvetja til þess að í meðförum þingsins verði þetta mál skoðað með það í huga að þessi gjaldtaka verði lækkuð enn frekar og helst felld niður, að minnsta kosti tímabundið á meðan við erum að komast yfir þennan erfiða tíma. Við getum áætlað það í einhver tvö, þrjú ár. Við höfum sýnt það í gegnum tíðina að þegar eitthvað bjátar á þá sýnum við samstöðu og það eru vissulega erfiðir tímar. Við erum með atvinnugrein sem er veik fyrir og við eigum ekki að mæta því, virðulegi forseti, með auknum álögum.