aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.
Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir ræðu hans. Það er auðvitað mikill fengur að því að fá menn beint úr greininni, beint utan af sjó og hingað inn. Það færi betur að við værum fleiri hérna sem þekktum málið ofan í grunninn.
Það er alveg rétt að það að drepa fisk hefur áhrif og að veiða fisk sem annars gæti verið æti fyrir annan fisk hefur áhrif. Lífkeðjan spilar öll saman. Oft eru veiðar ekki það sem ræður úrslitum. Það kom fram í ræðu fyrr í kvöld hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að verulegu máli skiptir hve mikið er veitt af æti. Hann benti á rækjustofninn sem er mældur í sögulegu lágmarki til margra ára, 20 ára. Menn fara í rækjurall á hverju ári og þar hefur mælst að þorskur á rækjuslóðinni heldur niðri rækjustofnunum.
En það er eitt sem þarf að athuga, þ.e. flottrollsveiðar á síld og loðnu. Ég held að við ættum kannski að byrja á því og leyfa ekki loðnuveiðar nema á sjálfri vetrarvertíðinni þegar loðnan er hæf til frystingar, sérstaklega á Japansmarkað sem gefur hæsta verðið, þ.e. meðan hún er hrognafull. Flottrollsveiðar eigum við að banna, ekki síst út af seiðum í meðafla og öðrum tegundum.