Aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 21:24:05 (499)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[21:24]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Varðandi auknar þorskveiðiheimildir og ástand fiskstofna, eins og við höfum rætt um í dag, er rétt að hafa það í huga að við höfum farið ýmsar leiðir til að reyna að vernda smáfisk, reyna að byggja upp veiðistofninn. Við höfum í fyrsta lagi takmarkað veiðar, sett á kvóta. Við höfum beitt skyndilokunum á veiðisvæðum allt í kringum landið, ótæpilega að margra mati eins og fram hefur komið í dag. Mér telst til gróflega að lokuð svæði í dag eða takmörkuð veiðisvæði, nemi um 17–18 þús. fermílum, fyrir utan tólf mílna landhelgi.

Skoði maður kort af lokuðum og takmörkuðum veiðisvæðum í kringum landið þá gætu leikmenn átt erfitt með að ímynda sér hvernig fiskveiðar eru stundaðar. Við beitum ótal aðferðum við þetta. Við höfum stækkað möskva, beitt skyndilokunum, erum með smáfiskaskiljur o.s.frv. Við höfum frá því í upphafi stjórnar fiskveiða verið að stækka undirmálið, aukið hlutfall þess fisks sem ekki telst undirmál og þannig mætti áfram telja. En þetta hefur ekki borið árangur. Þar liggur hundurinn grafinn.

Við verðum að velta því fyrir okkur hvers vegna þetta gengur ekki betur en það gerir þrátt fyrir allar þær leiðir. sem við höfum farið. Um það þurfum við að ræða frekar en að taka ákvörðun um að veiða meira af einni fisktegund en ráðlagt er. Ég ítreka þó að ég skil sjónarmiðin og er sammála sjónarmiðunum í þessari tillögu en ég hefði viljað taka víðar á málinu en þetta.