Aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 21:26:17 (500)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[21:26]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að fá svona umræður um þetta mál. Það er ekki á hverjum degi sem við fáum málefnalegar umræður um fiskveiðistjórn, afleiðingar af vitlausri stjórn og öðru í þeim dúr.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason getur reitt sig á að við í Frjálslynda flokknum munum flytja mörg frumvörp í vetur sem snúa að sjávarútvegi. Við munum væntanlega flytja frumvarp um stjórn fiskveiða. Ég veit ekki hvenær við getum lagt það fram en það munum við gera fullmótað. En þangað til munum við leggja áherslu á mörg mál sem snúa að sjávarútvegi, nánast á öllum sviðum hans. Við munum leggja okkur fram við að tala fyrir þeim og vekja athygli þingheims á sjávarútvegsmálum.

Þrátt fyrir allt, þó að menn reyni að telja íslenskan sjávarútveg niður, að hann hafi orðið svo lítið vægi eftir að til komu peningarnir og bankarnir og orkan þá voru rétt tæp 50% af útflutningstekjum íslensku þjóðarinnar í gegnum sjávarútveginn. Það er auðvitað nauðsynlegt að við áttum okkur á því að eftir sem áður leikur sjávarútvegurinn stórt hlutverk. Hann gerir það í sjávarbyggðunum í kringum landið og þess vegna er mikilvægt að stjórna honum skynsamlega.

Það er ljóst að það eru margir þorskstofnar við Ísland. Við þurfum að hugsa um þessi mál út frá allt öðrum forsendum en gert hefur verið hingað til. Eftir að það var staðfest og sannað er að um marga þorskstofna er að ræða þá verðum við að hugsa þetta út frá allt öðrum forsendum. Við verðum að nýta nálægðina við miðin og því (Forseti hringir.) verða sjávarbyggðir í kringum gjöful fiskimið að fá að nýta stofnana. Það á ekki að vera hægt að flytja veiðiheimildir á milli landshluta.