aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir efnislega ræðu. Ég get alveg verið nákvæmlega sammála honum um það, og hef haldið því á lofti, bæði hérlendis og erlendis, þegar þessi mál hafa borið á góma, að auðvitað er staðan ekki sú að þorskstofninn sé að hruni kominn. Því hefur aldrei verið haldið fram, a.m.k. hef ég ekki gert það. Það er auðvitað mjög margt sem við sjáum í þessum gögnum sem út af fyrir sig gefa okkur tilefni til bjartsýni.
En kjarni málsins er sá að vegna þess að við erum í þessari stöðu, sem við erum í þrátt fyrir allt í dag, getum við tekið ákvarðanir sem síðan stuðla að því að byggja upp þorskstofninn. Ef hann væri að hruni kominn værum við auðvitað í þeirri alvarlegu stöðu að jafnvel drastískar ákvarðanir eins og þær sem gripið hefur verið til mundu ekki endilega leiða til þess að við sæjum uppsveiflu í þorskstofninum að nýju.
Við sjáum að hjá þeim þjóðum sem hafa lent í því að veiða niður þorskstofninn sinn eða af öðrum ástæðum lent í því að þorskstofninn hefur minnkað svo mikið, eins og við þekkjum dæmi um annars staðar, í Norðursjónum, Kanada og víðar, er staðan sú að uppbygging þorskstofnsins gengur mjög hægt ef hún þá nokkurn tímann tekst.
Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að það hafi verið svo mikilvægt einmitt að grípa í taumana núna þegar við erum í þeirri stöðu að sannarlega, miðað við síðustu ár, hefur staða þorskstofnsins slaknað. Það er að vísu hægt að bera saman einhver tiltekin ár eins og hv. þingmaður gerði en engu að síður hefur staða þorskstofnsins slaknað. Það sem meira er eru tíðindin mjög alvarleg ef við skoðum alveg sérstaklega stærsta þorskinn. Þar er staðan alvarleg og það held ég að sé alveg ómótmælanlegt.
Ég hlustaði á mjög athyglisvert erindi Guðrúnar Marteinsdóttur prófessors á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva. Þetta var það sem hún dró m.a. fram. Okkur getur greint á um held ég flesta hluti í þessum efnum varðandi fiskveiðiráðgjöfina en þetta er hins vegar algjörlega ómótmælanlegt. Við höfum reynt að grípa til aðgerða. Það hefur skilað aðeins árangri, m.a. benti hv. þingmaður á það. Það er ánægjulegt og sýnir okkur að með því að grípa til aðgerða, með því að reyna að stjórna veiðinni, getur okkur tekist að byggja upp þorskstofninn.