aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.
Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að andmæla því að rétt sé að stjórna veiðum. Það er að vísu umdeilt hvort þær hafi einhver áhrif en ég ætla ekki að andmæla því.
Það sem ég vil benda á, virðulegi forseti, er að forsendurnar fyrir ákvörðun sjávarútvegsráðherra eru fyrst og fremst aldurssamsetning hrygningarstofnsins. Ef menn byggja á þessu þýðir það að það verður mjög mikill niðurskurður í þorskveiðum í mjög mörg ár vegna þess að aldurssamsetningin breytist mjög hægt. Það er að lágmarki í þrjú ár sem þarf að halda þorskveiðunum niðri í 130 þús. tonnum. Ég vil segja, virðulegi forseti, að ef menn fylgja ákvörðuninni eftir er það þriggja til sex ára mjög harður niðurskurður.
Þær upplýsingar sem ég hef dregið hér saman segja okkur að það er fjarri því að það verði nein vá fyrir dyrum, jafnvel þó að við veiðum þorskinn næstu ár samkvæmt gildandi aflareglu. Fjarri því. Þess vegna eigum við fyrst um sinn að gera það en kappkosta að afla betri upplýsinga um þorskstofninn en við höfum vegna þess að þær upplýsingar sem Hafrannsóknastofnun byggir mat sitt á eru svo meingallaðar eins og mjög ítarlega hefur verið rakið, bæði innan þings og utan, og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur ítrekað bent á hversu gallaðar þessar upplýsingar eru. Við höfum tíma til að endurbæta rannsóknaraðferðirnar og afla okkur betri upplýsinga um stöðu þorskstofnsins áður en við grípum til slíkra aðgerða sem þessara sem ráðherra hefur gert.