Aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 21:43:15 (505)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[21:43]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum af því reynslu að gera nákvæmlega það sem hv. þingmaður er að tala um, við reyndum að halda okkur við þá aflareglu sem við höfum stuðst við undanfarin ár. Staðan hefur verið sú að við höfum hjakkað í sama farinu og raunar farið frekar niður á við. Það er það sem við erum að reyna að bregðast þarna við.

Það er ómótmælanleg staða að viðmiðunarstofninn hefur minnkað. Hann minnkaði núna á milli ára. Auðvitað geta verið árlegar sveiflur þarna. Eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason nefndi hérna áðan eru um 40% af skýringunni af því að viðmiðunarstofninn minnkar um 100 þús. tonn á milli ára þær að hver einstaklingur er léttari en hann var árið á undan. Hann er ekki holdlakari en hann var fyrir einu ári en hann er hins vegar smærri og léttari.

Í öðru lagi liggur það líka fyrir að hrygningarstofninn hefur verið að minnka. Síðan er það hitt sem ég nefndi líka í fyrra andsvari mínu að þegar við skoðum stærsta hrygningarfiskinn er ómótmælanlegt að hann hefur dregist mikið saman. Við höfum gripið til aðgerða, við höfum t.d. minnkað möskva í netum og gripið til annarra aðgerða sem hafa leitt til þess að við höfum náð þarna aðeins árangri sem er vísbending um að það er hægt með því að reyna að bregðast við. Við getum haft áhrif á stærð fiskstofnsins sem skiptir miklu máli. Annars staðar höfum við séð þá reynslu að þjóðir hafa komist í þá stöðu að þrátt fyrir að þær grípi til drastískra aðgerða miðar þeim ekkert áfram. Þess vegna skiptir að mínu mati svo miklu máli fyrir okkur, einmitt núna þegar við erum í þessari stöðu, að við erum þó ekki alveg komin að fótum fram með okkar þorskstofn, hann er í lakara ástandi en við vildum að hann væri en við höfum möguleika á því að byggja hann upp og þess vegna eigum við að gera það þótt það kosti okkur tímabundna erfiðleika sem við reynum þá að glíma við með öðrum hætti.