aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.
Herra forseti. Ég verð enn og aftur að þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir hans innlegg í umræðuna. Ég held að hún sé af því góða og ég held að þetta eigi — ég hef sjálfur talað fyrir því í tíu ár að hleypa þurfi fleiri aðilum inn í þessar rannsóknir og gefa þeim tækifæri til að rannsaka bæði svæði og tegundir o.s.frv. Ég sé ekki betur en við getum verið sammála um það.
Togararallið sem slíkt er allt of umdeilt. Ég hef áður sagt það úr þessu ræðupúlti að við kölluðum saman á fund nokkra af þeim skipstjórnarmönnum sem hönnuðu togararallið í upphafi og heyrðum álit þeirra. Þeim bar öllum saman um að togararallið stæðist ekki tímans tönn. Togararallið er nákvæmlega eins og það var 1984, það hefur ekki tekið neinum breytingum. Á meðan því er ekki breytt og það er ekki aðlagað — og svo er það annað að togararallið byggðist mest á togaraslóðinni. Það eru sárafá tog á grunnslóð og hvað þá uppi í fjöru, það kemst náttúrlega enginn með troll þangað, sérstaklega ekki þar sem er harður botn o.s.frv. Það er því full ástæða til þess að skoða þessi mál og ég fagna því enn og aftur að menn skuli vera að vona.
Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur fram að þessu ekki tekið tillit til skoðana skipstjórnarmanna eða til skoðana annarra en Hafrannsóknastofnunar. Ég hef stundum nefnt Ladda til sögunnar til samanburðar, hann gerir grín að ríkisflokknum en hæstv. ráðherra talar um eina ríkisstofnun, þ.e. Hafrannsóknastofnun.