Aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 22:01:05 (511)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:01]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur ítreka þá skoðun mína að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi unnið sitt verk eftir bestu samvisku að sjálfsögðu og líka með þeim eina hætti sem honum var fær. Mín tillaga er sú að við aðstoðum og hjálpum hæstv. sjávarútvegsráðherra og komandi ráðherrum í þessum málaflokki til þess að hafa fleiri sjónarmið uppi sem er hægt að byggja á. Vandinn, enn og aftur, við fiskifræði sjómannsins, þó ég beri fulla virðingu fyrir öllum þeim fræðum og þeirri miklu þekkingu sem þar býr, er sá að það er erfitt að koma henni þannig fram að hægt sé að taka ákvörðun sem hægt sé að rökstyðja fyrir ráðherrann út á við gagnvart þjóðinni, gagnvart greininni. Því eru, að mínu mati, hendur sjávarútvegsráðherra bundnar við í þeirri aðstöðu sem hann nú er. Og þeirri aðstöðu vil ég breyta.