aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.
Forseti. Innlegg hv. þm. Illuga Gunnarssonar var ágætt og mér mjög að skapi. Það nánast fellur að því sem ég var að segja hérna áðan um að við þurfum að líta á heildarmyndina, ná utan um stjórn fiskveiða frá öllum hliðum, ná tökum á hverjum þætti sem þar er við að etja, ef við ætlum að ná einhverjum árangri.
Ég er hins vegar ósammála honum varðandi ýmislegt sem hann ræðir um til dæmis varðandi ákvarðanir ráðherra um fiskveiðiráðgjöf og að besta ráðgjöfin sem sé völ á sé hjá Hafrannsóknastofnun. Rökin á móti því, meðal annars varðandi sjávarútvegsráðherrann, eins og kom fram hjá hv. þm. hjá Kristni Gunnarssyni áðan, eru að af 17 fisktegundum sem ráðherra veitir ráðgjöf í eða gerir tillögur um fer hann eftir aðeins 12. Hann hundsar sem sagt tillögur Hafrannsóknastofnunar í 12 tilfellum af 17 mögulegum. Það stangast þarna á það sem hann segir um einn fiskstofn umfram annan.
En það er rétt að það er erfitt að spá fyrir hvort sem það er hvað þetta varðar eða í mannheimum, eins og Illugi Gunnarssonar orðaði það. Lengi hafa staðið yfir deilur um það hversu margar rjúpur eru á landinu og sjást þær þó stundum á flugi. Menn treysta sér ekki til að kasta tölu á þær. En við höfum samt fengið tillögur nánast upp á kíló, höfum fengið að vita það nánast upp á kíló hvað til er af fiski á ákveðinni veiðislóð. Vísindin eru því ekki óskeikul hvað það varðar.
Ég hvet til þess hins vegar, sem hann nefnir og ég nefndi hér fyrr, að það verði aukin umræða um þetta víðar en á Hafrannsóknastofnun. Við verðum að fá fleiri aðila, helst óháða aðila til að ræða þetta.
Það þarf að stórauka fjármagn til Hafrannsóknastofnunar. Hafrannsóknastofnun hefur nánast verið fjársvelt á undanförnum árum og fengið langtum minna fé en hún hefur óskað eftir (Forseti hringir.) til rannsókna.