aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.
Virðulegi forseti. Hvað varðar ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra þá er það til að taka, tel ég, að hann hafi nálgast það vandasama verkefni sem hann stóð frammi fyrir þannig að líta til þess fiskstofns sem er hvað verðmætastur fyrir okkur Íslendinga og talið sig þurfa að fylgja þeirri ráðgjöf sem þar kom fram en hafi síðan reynt eftir fremsta megni og bestu getu að deyfa það áfall sem þjóðarbúið og sérstaklega hinar dreifðu byggðir landsins urðu fyrir vegna þeirrar ákvörðunar með því að fara út á ystu mörk hvað varðar veiðar í mörgum öðrum stofnum. Það breytir að mínu mati ekki þeirri grundvallarstöðu sem hæstv. ráðherra stendur frammi fyrir þegar kemur að því að taka þessa ákvörðun. Hann er bundinn í báða skó að mínu mati og á þess vegna óhægt um vik að komast að annarri niðurstöðu en hann gerði.
Síðan tel ég að mæliaðferðirnar, eins og hér hefur komið fram, séu um hvað margt sérstakar og geti verið svo umdeilanlegar að það geti verið mjög erfitt að sannfæra sjálfan sig um að þeir hafi nákvæma mynd af þessu.
Það er rétt sem kom hér fram hjá hv. þingmanni að það er furðulegt hvað menn hafa leyft sér oft að tala um þetta eins og þeir séu handhafar mikillar nákvæmni og mikillar vissu um hvað sé að gerast í hafinu á sama tíma og við vitum hversu erfiðlega gengur meðal annars að meta rjúpustofninn eða lífríki Mývatns, svo eitthvað sé nefnt sem er þó ekki nema brotabrot af þeim vandamálum sem menn standa frammi fyrir þegar meta þarf lífríki hafsins.