aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.
Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar þessa ákvörðun hæstv. ráðherra sem ég þreytist nú ekki á að hrósa þá er til þess að taka, án þess að ég sé nú sérfræðingur í þessum ýsumálum öllum, að það mátti skilja á Hafrannsóknastofnun að vilji væri til þess að auka möguleika á aðgengi flotans að ýsunni með því að beita viðmiðunarmörkum þannig að það er ástæða fyrir því. Og enn og aftur var tekin þessi ákvörðun um þorskaflann vegna þess að það er sá stofn sem menn höfðu hvað mestar áhyggjur af og er um leið einn okkar verðmætasti stofn.
Síðan hitt hvað varðar háskólann þá er ég alls ekki að útiloka að þar séu síðan stundaðar grunnrannsóknir og líka hitt — og enn á ný ber hæstv. ráðherranum hrós — að það er verið að auka jafnt og þétt framlög til frjálsra vísindarannsókna á þessu sviði sem ég tel að muni skila sér þegar upp verður staðið.
Aðeins að lokum þetta: Við stöndum frammi fyrir áhugaverðu vandamáli sem felst í umræðunni um það hversu mikið skal veiða af þessari tegundinni eða hinni þegar menn horfa til þess hver éti hvern í hafinu. Þá er það nú þannig að þeir sem eiga kvóta í þorski til dæmis kynnu að hafa skoðun á því hversu mikið er veitt af loðnu. Það þarf ekki að vera þannig að þar sé um að ræða veiðiheimildir á sömu hendi, þ.e. að þetta séu tveir óskyldir aðilar, einn sem eigi loðnuna og annar sem eigi í þorskinum. Þá vaknar spurning: Í hvaða stöðu er ríkisvaldið að ákveða að byggja upp einn stofn með því að veiða meira eða minna af öðrum? Það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar til framtíðar er litið.