Aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 22:26:22 (517)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:26]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér fannst hv. þingmaður vera kominn í dálitla mótsögn við það sem er tilgangur þessarar tillögu. Tilgangur tillögunnar er sá að auka heimildir í þorskveiðinni vegna þess að hv. þingmaður hefur verið að leiða að því rök að Hafrannsóknastofnun hafi í raun og veru verið að vanmeta stærð þorskstofnsins.

Síðan fer hv. þingmaður í það að útskýra fyrir okkur að það hafi hvorki gengið né rekið og alveg frá því að skrapdagakerfið var lagt af höfum við ekki verið að ná neinum árangri og við séum í raun og veru í verri stöðu en þegar við vorum í skrapdagakerfinu. Hv. þingmaður verður auðvitað að útskýra það fyrir okkur hvernig stendur á því. Hvort er rétt? Erum við að vanmeta stærðina eða erum við að ofmeta stærðina? Er þorskstofninn í alvarlegri stöðu eins og hv. þingmaður var í öðru orðinu að segja eða er þetta allt saman í góðu lagi?

Samkvæmt því sem Hafrannsóknastofnun segir hefur hún ofmetið stærð þorskstofnsins og það er ástæðan fyrir því að veiðihlutfallið hefur farið talsvert fram úr 25%. Það er alveg rétt að við höfum ekki veitt fram úr 25% miðað við það sem upphaflega var áætlað heldur höfum við gert það vegna þess (Forseti hringir.) að farið hefur fram endurmat á stærðinni og það hefur leitt til þess að Hafrannsóknastofnun hefur talið að hún hafi ofmetið þorskstofninn í fyrstu umferð.