aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.
Hæstv. forseti. Ég skynja að hæstv. ráðherra hefur mikinn vilja til að reyna að misskilja það sem ég sagði. Ég hef margoft sagt það í þessum ræðustól að ég teldi að þorskstofninn væri ekki það neðarlega í dag að ástæða væri til að vera í sérstöku svartsýniskasti yfir því. Það væri hægt að halda veiðinni í 170 þús. tonnum, og þess vegna meira en það, án þess að við stefndum í það að taka stofninn svo niður að hann gæti ekki viðhaldið sér á komandi árum.
Ég hef líka sagt það hér að aðalmálið varðandi það að ná upp þyngd þorsksins væri að gefa honum að éta, að hann hefði möguleika á að ná sér í æti og það á auðvitað ekki bara við þorskstofninn heldur fjöldamarga aðra fiskstofna.