Aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 22:30:03 (520)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:30]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég taldi mig hafa rakið það mjög vel í máli mínu að vegna fjölda skyndilokana væri greinilegt að það væri meira að vaxa upp af viðmiðunarárgöngum tveggja til fjögurra ára fisks en Hafrannsóknastofnun hefði gert ráð fyrir. Eins og hæstv. ráðherra veit hefur Hafrannsóknastofnun gert ráð fyrir því að meðaltal þessara viðmiðunarárganga væri um 115 milljónir þriggja ára nýliða sem núna er verið að miða við. Þegar viðmiðunarstofninn var fyrir nokkrum árum 170 milljónir þriggja ára nýliða komust skyndilokanir eitt árið einu sinni í 97.

Ég hef verið að segja það alveg hiklaust að miðað við fjölda skyndilokana er allt sem bendir til þess að það sé meira að vaxa upp af ungþorski en við eða Hafrannsóknastofnun höfum gert ráð fyrir að væri í sjónum og þess vegna skiptir auðvitað máli að hann fái að éta og þorskstofninn stækki og þorskstofninn fari ekki að éta sjálfan sig.