Aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 22:38:28 (527)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:38]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur ljóst fyrir að þetta samhengi hefur verið öllum ljóst um langan tíma og hefur verið notað sem viðmið.

Ég sagði hér áðan að það er varúðarreglan sem gildir í þeim ákvörðunum sem sjávarútvegsráðherra hefur tekið varðandi veiðar úr þorskstofninum og það er vegna þess að okkur vantar kannski dýpri og gleggri upplýsingar en við höfum. Hann er einnig að leggja grunn að því að hægt sé að safna frekari upplýsingum og fleiri vísindamenn geti komið að þessum málum og haft skoðanir þannig að almenn umræða á vísindalegum grunni geti farið fram um þessi mál.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði í kynningu sinni í upphafi að þótt spáin sé rigning en sólin skíni þá eigi að fara á sjó. Það er rétt að stundum reynast spár rangar en það hefur mörgum sjómanninum orðið erfið raun (Forseti hringir.) að hafa ekki hlustað eftir veðurfregnum og má ég þá heldur biðja um varfærna stefnu í þeim málum.