Aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 22:40:17 (529)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:40]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil gera að umræðuefni mínu hérna það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi varðandi skyndilokanir en það verður slegið og hefur þegar verið slegið nýtt Íslandsmet í skyndilokunum, held ég, það sem af er þessu ári, og flestar snúa þær að krókaveiðum, þ.e. vegna veiða á línu eða handfæri á smáfiski. Ef ég hef náð að telja rétt fyrir nokkrum dögum þá held ég að nálægt þrír fjórðu hlutar af öllum lokunum hafi verið vegna krókaveiða. Hvers vegna fer svona mikill smáfiskur á króka, hvers vegna bítur smáfiskur á línu eða öngla? Það er vegna þess að hann er svangur, hann hefur ekki um annað æti að velja, þess vegna fer hann þetta.

Þess vegna óttast ég það sem ég hef verið að benda á hérna varðandi samhengi fiskstofna, loðnustofns, ætistofnsins og þess stofns sem nærist á honum, að með þessari friðun séum við nánast að reyna að fjölga þeim fiskum í sjónum sem hafa það skítt, verða svangir og litlir. Og þá fer nú að halla (Forseti hringir.) að því að við getum farið að ræða um aðbúnað og hollustuhætti fyrir þorskinn í sjónum.