Aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fimmtudaginn 11. október 2007, kl. 22:42:33 (531)


135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:42]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni varðandi krókaveiðarnar og smáfiskinn. Þetta er þekkt víðar en í þorskinum eða ýsunni, þetta þekkir maður sömuleiðis í stangveiðinni, eiginlega alls staðar þar sem maður veiðir fisk, að svangir smáfiskar eru oft grimmari á krókana en stóru fiskarnir.

Það er tvennt annað sem mig langar til að minnast á hérna sem hefur komið fram í fyrsta lagi hjá hv. þm. Karli Matthíassyni varðandi fiskverðið og vonir hans um að það muni hækka enn meira en það hefur gert í dag. Það er rétt að fiskverð hefur hækkað en vonir okkar sem erum að veiða og selja fisk eru þær að það hækki ekki meira en það hefur gert því það ræðst í þessu eins og í mörgu öðru af framboði og eftirspurn. Við höfum áður séð verðið fara í þessar hæðir og það reyndist okkur ekki vel því að fallið verður alltaf dýpra eftir því sem verðið fer hærra og hraðar upp. Það er einmitt það sem er að gerast í dag, m.a. vegna ástandsins í veiðiheimildunum.