Almannavarnir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2007, kl. 14:51:13 (1584)


135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[14:51]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um almannavarnir sem er í raun ný heildarendurskoðun á almannavarnalögunum. Gerð var talsvert mikil breyting á lögunum um almannavarnir á 128. löggjafarþingi veturinn 2002–2003 þegar farið var í ákveðnar aðgerðir sem mættu satt að segja talsverðri gagnrýni og mótstöðu hér á Alþingi. Þá var verið að færa málaflokkinn eða málefni almannavarna til í kerfinu. Samkvæmt þeim lögum sem fram að því höfðu gilt höfðu starfsemi og verkefni á þessu sviði verið í höndum almannavarnaráðs og Almannavarna ríkisins en samkvæmt því frumvarpi sem þá var flutt af hæstv. dómsmálaráðherra var gert ráð fyrir að þetta hvorutveggja yrði flutt undir embætti ríkislögreglustjóra.

Meginmarkmið þess á sínum tíma að hæstv. ráðherra flutti það mál var sagt þríþætt. Í fyrsta lagi átti breytingin að fela í sér aukið öryggi og eflingu almannavarna í landinu. Í öðru lagi var gert ráð fyrir því að um styttri boðleiðir yrði að ræða í kerfinu öllu og í þriðja lagi var gert ráð fyrir því að breytingin mundi fela í sér sparnað í opinberum rekstri og í því sambandi var gert ráð fyrir því að um það bil 20 milljónir mundu sparast á þessum kerfisbreytingum á ári þegar allt væri komið.

Þessar breytingar voru í sjálfu sér, eins og ég sagði áðan, nokkuð umdeildar. Stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi, Samfylking og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, lögðust gegn þessum breytingum og skiluðu minnihlutaáliti á sínum tíma þegar málið var afgreitt héðan þar sem hv. núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Lúðvík Bergvinsson, var 1. flutningsmaður nefndarálitsins fyrir hönd minni hlutans. Þá gagnrýndi hann mjög marga þætti málsins, ekki bara það hvernig málum yrði fyrir komið með breytingunni heldur líka það að ekkert samráð virtist hafa verið haft við framkvæmdastjóra Almannavarna og einhverja aðra hlutaðeigandi á þeim tíma sem breytingin var gerð. Minni hluti allsherjarnefndar á þessum tíma dró í efa að þetta mundi leiða til sparnaðar og taldi ákveðinn tvískinnung í því að það ætti að efla almannavarnir á sama tíma og það ætti að spara 20 milljónir á ári. Sömuleiðis gerði minni hlutinn á þessum tíma ráð fyrir því eða vildi halda því til haga og gerði það á mjög kraftmikinn hátt í ræðum sem hér voru haldnar að almannavarnir ættu ekki fyrst og fremst að snúast um lögreglu- eða löggæslumál heldur væri það aðeins einn þáttur starfseminnar og mikil áhersla var lögð á alla þá aðila sem koma ættu að þessum málum aðra en lögreglu. Í því sambandi taldi minni hlutinn að hér væri verið að færa málaflokkinn undir lögregluvald þar sem hann ætti ekki heima og dró í efa að breytingin mundi leiða til aukins öryggis landsmanna ef til almannavarnaástands kæmi. Sömuleiðis óttaðist minni hlutinn þá að málið væri ekki nægilega vel undirbúið og taldi skynsamlegast að fresta málinu og vinna það frekar hefðu menn raunverulegan áhuga á því að efla almannavarnir í landinu.

Nú væri fengur að því að heyra í hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni, sem ég veit að er hér og hlýðir á þessa umræðu, hvort Samfylkingin hafi gert á því einhverja skoðun hvað í sjálfu sér breytingin frá 2003 hafi leitt af sér. Ég saknaði þess líka í ræðu hæstv. ráðherra að hann skyldi ekki fara yfir það hvort markmiðin með breytingunum 2003 hefðu náðst, hvort þessi sparnaður hefði náðst eða hvort þau meginatriði sem ég taldi upp hér áðan hefðu náðst fram með breytingunum. Það hefði verið fróðlegt að fá að heyra það og verður að öllum líkindum skoðað í hv. allsherjarnefnd.

Breytingarnar árið 2003 voru afgreiddar héðan með mótatkvæðum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar. Ég auglýsi því enn eftir afstöðu Samfylkingarinnar í málinu, á hvern hátt þau hafi endurmetið sjónarmið sín í þessum efnum á þeim fáu árum sem liðin eru því ég tel að slík afstaða þyrfti að fylgja málinu inn í umfjöllun allsherjarnefndar.

Að öðru leyti vil ég segja það, virðulegi forseti, að það er alveg ljóst að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason er með þessu frumvarpi að fullklára þær breytingar sem í var farið 2003 og eflaust hefur í hans huga verið stefnt að einhverju í líkingu við þetta sem hér er nú lagt til þannig að ég ímynda mér og mér sýnist í öllu falli að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu í alveg rökréttu framhaldi málsins frá 2003 og finnst þar af leiðandi sjónarmið hæstv. ráðherra, þ.e. heildarmyndin og heildargrunnhugmyndin með breytingunum 2003 liggur í raun og veru ljós fyrir í því frumvarpi sem hér er mælt fyrir.

Það sem mér finnst ámælisvert í þessu máli eða vil gera athugasemdir við á þessu stigi málsins, hæstv. forseti, varðar í fyrsta lagi þá ákvörðun um að hér skuli stofnað öryggismálaráð í þessum almannavarnalögum. Ég vil á sama hátt og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði það að umtalsefni í sinni ræðu beina athygli fólks að því að hér er farið í gríðarlega mikla útvíkkun á verksviði almannavarna með því að fella hér undir málefni af því tagi sem gert er í markmiðsgrein frumvarpsins, þ.e. hernaðaraðgerðir og hryðjuverk. Mér finnst, á sama hátt og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði hér grein fyrir, að öryggismálin eða hervæðingin sé hér að hefja innreið sína og hefði viljað að hæstv. dómsmálaráðherra talaði meira um þá hlið málsins en hann gerði í ræðu sinni. Ég ímynda mér að það hafi kannski verið af ásettu ráði að hæstv. ráðherra fór svona fremur mildum orðum um þessa hlið málsins vegna þess að auðvitað er hann sér fullkomlega meðvitaður um að um þennan þátt málsins ríkja mjög öndverð sjónarmið. Það eru grundvallarsjónarmið í þessum efnum sem hér takast á og það er ekki sanngjarnt af hæstv. ráðherra að sniðganga það að taka þá umræðu hér á þessum vettvangi við 1. umr. málsins.

Gert er ráð fyrir því í 3. gr. frumvarpsins að í almannavarna- og öryggismálastefnu stjórnvalda skuli gera grein fyrir ástandi og horfum í almannavarna- og öryggismálum í landinu, fjalla um áhersluatriði varðandi skipulag almannavarna- og öryggismála, forvarnastarf, nauðsynlega samhæfingu á efni viðbragðsáætlana og starfsemi opinberra stofnana á því sviði. Ég verð að segja að það hefði verið fengur að því að hafa fylgiplagg með þessu frumvarpi þar sem einhvers konar uppkast eða stefnumörkun væri til staðar frá hendi ríkisstjórnarinnar um þessa almannavarna- og öryggismálastefnu því að ég verð að segja að þar er enn þá autt blað. Ég held að ríkisstjórnin skuldi bæði almenningi og okkur þingmönnum örlítið greinarbetri lýsingu á því hvað menn sjá fyrir sér í þessum efnum varðandi öryggismálastefnuna.

Eins og ég met öryggismálastefnu þessarar ríkisstjórnar þá kemur hún fram í því starfi sem hefur verið unnið á vegum utanríkisráðuneytisins upp á síðkastið. Þar höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnrýnt mjög þá hernaðarvæðingu sem hefur verið á borði utanríkisráðherra í þessum efnum. Við höfum gagnrýnt hvernig farið hefur verið fram varðandi samkomulag við nágrannaþjóðir okkar í öryggis- og björgunarmálum. Við höfum lagt mjög mikla áherslu á að almannavarnaþátturinn í slíku samstarfi þurfi að vera á borgaralegum forsendum en ekki hernaðarlegum og viljum að dregin sé skýr lína á milli borgaralegrar starfsemi almannavarna okkar og þeirrar starfsemi sem herir nágrannaþjóða okkar hafa með höndum.

Ég geri mér fulla grein fyrir því, hæstv. forseti, að það er ekki í alla staði einfalt mál en ég held að það skipti verulegu máli og sé grundvallaratriði í stefnu Íslands sem er herlaust land, sem hefur skuldbundið sig og heitið því að fara aldrei með vopnum gegn annarri þjóð og ætlar sér ekki að koma upp eigin her, að slík þjóð tali alveg skýrt í þessum efnum og geri samstarfsaðilum sínum á þessum vettvangi grein fyrir því að við viljum draga þarna skýra línu. Við höfnum alls ekki samstarfi við nágrannaþjóðir okkar varðandi björgun og almannavarnastarf á Norður-Atlantshafinu, svo það sé alveg ljóst. Hins vegar teljum við að það samstarf eigi að fara fram á okkar forsendum en ekki forsendum samstarfsaðila okkar. Mér sýnist að með frumvarpinu eins og það er sett upp sé ekki verið að leggja til að hér séu dregnar skýrar línur heldur þvert á móti og kannski verður stór hluti af þessu starfi á mjög gráu svæði. Mér sýnist að það muni skeika sköpuðu í þessum efnum og að við þurfum örugglega að lúta í lægra haldi fyrir herþjóðunum í nágrenni okkar, að það sé mjög líklegt að við verðum þjóðin sem þarf að lúta í lægra haldi. Ef við reisum ekki varnirnar strax eða setjum forsendurnar strax verður það gert fyrir okkur af þjóðum sem hafa her og hafa ekki fullan skilning á vilja okkar í þessum efnum. Ég hefði haldið að í þessu frumvarpi, sem ég vona að verði unnið vel að í allsherjarnefnd, þyrfti að gera alveg skýran greinarmun á hvað eru borgaraleg björgunarstörf annars vegar og hvað heyrir undir hernað hins vegar, t.d. í samstarfi þessara borgaralegu björgunarapparata okkar þegar þau fara að starfa með nágrannaþjóðum okkar sem hafa her og stunda hernaðaruppbyggingu. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs viljum hafa þessi mál alveg á hreinu hvað okkur varðar og teljum hernaðarhyggjuna sem er að láta á sér kræla hvað varðar öryggis- og björgunarmál ekki vera af hinu góða.

Í greinargerð með frumvarpinu, á bls. 12 þar sem fjallað er um þróun í björgunarmálum upp á síðkastið, segir að gert sé ráð fyrir að fleiri hættur steðji að okkur en náttúruvá og slíkt. Þar er aðeins fjallað um hernaðaraðgerðir og sagt að stjórnvöld þurfi að búa sig undir almannahættu af mannavöldum og vegna farsótta af meiri þunga en áður hefur verið gert. Þar segir að Íslendingar hafi gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar um eigið öryggi og annarra sem stjórnvöld geti sinnt betur en ella með góðu og nútímalegu skipulagi almannavarna. Undir þetta prinsipp get ég tekið, að gott og nútímalegt skipulag þurfi að vera á almannavörnum, en ég vil að það sé algerlega skýrt að það skipulag og sú framkvæmd öll eigi að vera á borgaralegum forsendum eingöngu. Þess vegna er ég gagnrýnin á þennan meginþátt málsins, að þetta skuli allt heyra undir ríkislögreglustjóra og ríkisstjórn sem mundi þá hafa ríkislögreglustjóra sér við hlið í allri þessari skipulagningu. Lögregluvæðing og möguleg hervæðing þessara mála er eitthvað sem þarf að taka til verulegrar skoðunar og athuga hvort hægt sé að greina þarna á milli á mjög ákveðinn hátt.

Hæstv. forseti. Svo ég fari að draga ræðu mína niður á punkti þá langar mig að gera athugasemd við umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um þetta frumvarp. Sú umsögn fylgir frumvarpinu á bls. 25. Það er sárgrætilegt að í þessari umsögn skuli ekkert koma fram um væntanlegan kostnaðarauka þessara breytinga. Ég verð að biðja hæstv. ráðherra að gera þingheimi grein fyrir hvað hann sjái fyrir sér í þeim efnum. Það er allsendis ónógt að fjármálaráðuneytið segi eins og sagt er í niðurlagi umsagnarinnar á bls. 25, með leyfi forseta:

„Ef ákvæði frumvarpsins leiða til aukins kostnaðar vegna viðbúnaðar á hættutímum er eðli málsins samkvæmt þó ekki hægt að segja fyrir um hvort og í hvaða mæli það gæti orðið“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort gert sé ráð fyrir auknu umfangi þessara mála í fjárlögum næsta árs. Nú eiga lögin raunar ekki að taka gildi fyrr en í júní 2008, ef ég man rétt, en það þarf að liggja fyrir áður en málið fer héðan eftir 1. umr. hvað hæstv. ráðherra sér fyrir sér í þessum efnum. Þá mætti jafnframt hanga á spýtunni frásögn af því eða svar við þeirri spurningu minni hvort sparnaðurinn sem gert var ráð fyrir að næðist fram með breytingunum 2003 hafi náð fram að ganga eða ekki.