Almannavarnir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2007, kl. 15:15:10 (1589)


135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[15:15]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar ágætu umræður um frumvarpið og framlag þingmanna til þess að skýra einstök ákvæði þess. Ef ég vík fyrst að þessu sem var nú síðast til umræðu, þarna er verið að tala um almannavarna- og öryggismálaráð sem bæði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Siv Friðleifsdóttir vöktu máls á, vísa ég í fyrsta lagi til þess að í ríkisstjórn sem við Siv sátum saman í og gaf út yfirlýsingu 26. september árið 2006 var fyrst komið fram með þetta hugtak, almannavarna- og öryggismálaráð. Þar er því lýst yfir að það eigi að koma á laggirnar slíku ráði.

Ég tel mjög mikilvægt að hafa það í huga og einnig velta fyrir sér að þarna er talað um almannavarna- og öryggismálastefnu stjórnvalda þannig að það er alveg skýrt að stjórnvöld hafa skapað sér og skapa með þessu vettvang til að leggja á ráðin um þessa þætti í íslenska stjórnkerfinu á grundvelli þessa lagaákvæðis. En það segir okkur ekkert um það síðan sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir var að ræða um, að við séum að fara út í einhverjar aðgerðir sem eru hernaðarlegs eðlis.

Ef menn lesa hins vegar skipan ráðsins og skoða hvernig það er samansett sjá þeir að þarna koma saman á einum stað allir aðilar í landinu sem hafa bæði með almannavarnir landsins að gera og einnig öryggismál í víðtækari skilningi innan þess ramma sem íslenska stjórnkerfið hefur sett sér. Enginn held ég að hafi talað skýrar um það að Íslendingar ráði ekki yfir herafla en einmitt ég. Ég hef ferðast núna til nágrannalandanna og flutt fyrirlestra og alls staðar minnt á það að við Íslendingar ráðum ekki yfir herafla og öll samvinna okkar við önnur ríki varðandi leit og björgun á sjó eða hvarvetna annars staðar byggist á því að borgaralegar stofnanir komi að málum. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem haggar við því að aðeins borgaralegar stofnanir sinni þessum málum samkvæmt þessum lögum þótt almannavarna- og öryggismálaráð sé sett á laggirnar.

Hins vegar er ljóst að með ráðinu er skapaður vettvangur til þess að menn geti á vettvangi stjórnsýslunnar með þátttöku sveitarfélaga og almannasamtaka, Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, komið að því að móta stefnuna. Almannavarnir eru ákveðið hugtak sem er skilgreint í alþjóðlegum samningum. Ef menn líta á alþjóðlega samninga er annars vegar talað um almannavarnir og hins vegar hernaðaraðgerðir. Það er alveg skýrt að við erum alls ekki með þessari löggjöf að fara inn á neitt grátt svæði þegar litið er til þess hvernig að þessum málum er staðið í alþjóðlegu samhengi.

Það er algjörlega út í bláinn, finnst mér, af hv. þingmanni að gefa það til kynna að eitthvað í þessu frumvarpi sé þess eðlis að við séum að búa okkur undir hernaðarlegar aðgerðir. Það er með ólíkindum en það er stundum þannig að þegar minnst er á ákveðin orð hér í þingsalnum, eins og öryggismál eða öryggismálaráð, hlutafélög eða opinber hlutafélög, þá fara vinstri grænir alltaf inn á eitthvert spor sem leiðir þá í ógöngur í umræðum. Það hefur gerst í þessu samkvæmt málflutningi hv. þingmanns.

Það er ekkert í þessu frumvarpi þess eðlis að verið sé að búa til eitthvert grátt svæði milli borgaralegra og hernaðarlegra stofnana. Þvert á móti er alveg skýrt að hér er um borgaraleg viðbrögð að ræða. Það að segja eins og hv. þingmaður gerði að með því að ríkislögreglustjóri fái það verksvið sem hér er skilgreint sé verið að lögregluvæða og þar með næstum því hernaðarvæða þessi mál er málflutningur sem gengur ekki upp. Ríkislögreglustjóri er borgaralegt stjórnvald og lögreglan fer með borgaralegt vald. Að ætla síðan að álykta sem svo, af því að ríkislögreglustjóra var falið þetta hlutverk árið 2003, að hér sé verið að hernaðarvæða þessi mál sýnir hvað þessi málflutningur á við lítil rök að styðjast. Ég held að ef menn skoða þetta sé til mikilla framfara fyrir samfélag okkar að komið sé á laggirnar ráði sem hefur þetta umboð og það hlutverk sem hér er nefnt og verði til þess að treysta innviði þjóðfélagsins og efla öryggið sem er jú frumskylda stjórnvalda í sérhverju ríki.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um 5. og 7. gr. frumvarpsins og taldi að þar væri ríkislögreglustjóra veitt afar mikið vald. Ég tel að með ákvæðunum í 5. og 7. gr. frumvarpsins sé verið að efnisgera vald ríkislögreglustjóra sem honum var falið árið 2003 og að með þessum ákvæðum sé komið til móts við þau sjónarmið sem voru uppi hjá gagnrýnendum þess árið 2003, að ríkislögreglustjóri fengi þetta vald vegna þess að það var kannski ekki útfært nógu skýrt við þá breytingu í hverju valdið fælist. Það er gert hér. Og eins og menn sjá í 7. gr. er talað um að ríkislögreglustjóri hafi eftirlit og umsjón, taki þátt í undirbúningi o.s.frv. Það er verið að tala um hlutverk hans sem samræmingaraðila þannig að einn aðili í landinu beri ábyrgð á því að samræma þetta á einum stað. Ég held að allir hljóti að sjá kosti þess.

Síðan er í 5. gr. vald dómsmálaráðherra framselt til ríkislögreglustjóra til þess að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Í svona málum verður skipuritið og umboðið að vera skýrt þannig að það sé enginn flækjufótur sem trufli menn þegar til kastanna kemur. Ég tel að á því sé tekið í þessu frumvarpi með skýrum og góðum hætti.

Síðan var spurt um 12. gr. þar sem er vísað til fjarskiptakerfisins og það var líka tekið fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 26. september 2006 að hér ætti að koma upp öflugu fjarskiptakerfi, svonefndu TETRA-kerfi. Lykillinn að því að þessi samhæfingar- og stjórnstöð virki eins vel og frekast er kostur er að það kerfi sé gott og öruggt. Núna hafa verið settir upp 120 sendar og við samgönguráðherra skrifuðum í morgun undir samning við austurríska fyrirtækið Frequentis um endurnýjun á öllum fjarskiptabúnaði vaktstöðvar siglinga sem mun valda byltingu á því sviði eins og TETRA-kerfið hefur gert varðandi öll samskipti á landi. Það nær núna til landsins alls. Það eru komnir yfir 120 sendar ef ég veit rétt og stefnt að því að þeir verði 150.

Eins og kemur líka fram í greinargerð frumvarpsins var stuðst við TETRA-kerfið þegar leitað var að tveimur þýskum ferðamönnum við rætur Öræfajökuls fyrir fáeinum mánuðum. Það nær þangað og upp í óbyggðir. Án TETRA-kerfisins hefði öll sú leit, sá mikli viðbúnaður sem menn höfðu og það mikla og góða framtak sem björgunarsveitirnar og lögregla sýndu, ekki verið jafnmarkviss. TETRA-kerfið gerði gæfumuninn. Þeir sem hafa kynnst því og sjá hvernig það virkar átta sig fljótt á því að það er algjör bylting í samskiptaháttum okkar á sviði leitar og björgunar á hættustundu miðað við það sem áður var.

Ég var spurður um orðið „umsjónarmann“ í lokamálsgrein 12. gr. Hann er það sem í orðinu felst, umsjónarmaður, maður sem sér um að salarkynni og öll tækin séu í lagi en hann er ekki stjórnandi aðgerða. Það fer eftir eðli aðgerðanna á hverjum tíma og eru sérstök ákvæði um það í frumvarpinu.

Að öðru leyti um það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vék að sem íhugunarefni sem var í 19., 20. og 26. gr. eru þær efnislega óbreyttar frá núgildandi lögum og við sáum ekki ástæðu til að breyta þeim lagaákvæðum enda hefur sá kafli laganna staðist tímans tönn þótt við breytum öðru.

Síðan var ég spurður hvað fælist í 18. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Sérhver ráðherra getur, í samráði við ríkislögreglustjóra, ákveðið að opinberir aðilar eða einkaaðilar skuli grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana varðandi sölu á vörum, veitingu þjónustu og framleiðslu í atvinnurekstri sínum ef þess gerist þörf til þess að markmið laga þessara náist.“

Ég var spurður um hvaða tilvik gæti verið þarna til umhugsunar. Það gæti náttúrlega skapast eitthvert ástand þar sem menn sjá fram á að það þurfi að skammta, þurfi að taka upp aðrar aðferðir en venjulega og daglega tíðkast í viðskiptum manna á meðal, sjá til þess að vistir séu til staðar og annað slíkt. Þá getur viðkomandi ráðuneyti beitt sér í því. Ég sé ekki fyrir mér öll þau tilvik sem geta orðið en ákvæði af þessum toga er nauðsynlegt til að hafa heimildir svo að ekki vakni spurningar um heimildir ef menn þurfa að grípa til aðgerða af þessum toga.

Varðandi sjónarmið brunamálastjóra sem ég var spurður um er ég sama sinnis og hv. þm. Jón Gunnarsson. Ég tek undir orð hans og þakka stuðning hans við þetta frumvarp. Hv. þm. Jón Gunnarsson hefur jú verið í forustu Slysavarnafélagsins Landsbjargar um árabil og þekkir þessi mál af eigin raun, og stuðningur hans og hans félags og annarra sem að þessu máli koma sem þátttakendur við efni frumvarpsins er ákaflega mikils virði. Að sjálfsögðu hefðum við ekki lagt það fram nema af því að við vissum um þennan stuðning og áhuga þessara aðila á því að færa löggjöfina í þetta nútímalega horf.

Það er misskilningur hjá brunamálastjóra að það sé verið að ganga á hlut sveitarfélaganna eins og kom fram í framsöguræðu minni, og tel ég að ég hafi í henni svarað þeim sjónarmiðum sem m.a. eru á bak við þann misskilning. Það er algjörlega fráleitt að ætla að með þessu frumvarpi sé dregið úr ábyrgð og hlutverki sveitarstjórna þegar að því kemur að sinna almannavörnum. Þær eru, eins og ég sagði, lykilþátttakandi í góðri framkvæmd almannavarna og verða það áfram með vísan til þessara laga.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vakti máls á kostnaði við frumvarpið. Ég hef ekki mat á því hvaða fjárhagsleg hagræðing varð af þeirri breytingu sem gerð var 2003. Ég hef ekki látið skoða það. Ég tel að hún hafi orðið. Aðalhagræðingin og aðalkosturinn við það var að fella þessa starfsemi inn í það fjölþætta starf sem er unnið undir merkjum ríkislögreglustjóra og nú er þar starfandi alveg sérstök almannavarnadeild sem hefur gegnt ómetanlegu hlutverki, t.d. á Rangárvöllum þegar farið var í það mikla áhættumat og áætlanagerð á því svæði. Ég held að reynslan hafi sýnt að þetta hafi verið mjög skynsamlegt skref. Síðan segir hér sem hv. þingmaður nefndi, með leyfi forseta:

„Ef ákvæði frumvarpsins leiða til aukins kostnaðar vegna viðbúnaðar á hættutímum er eðli málsins samkvæmt þó ekki hægt að segja fyrir um hvort og í hvaða mæli það gæti orðið.“

Þetta er alveg rökrétt. Með frumvarpinu er ekki verið að leggja á ráðin um hvað þetta mundi kosta ef það yrði eldgos í vestanverðum Mýrdalsjökli. Við vitum hins vegar að það mun kosta eitthvað að bregðast við, flytja fólk og gera aðra hluti. Við höfum þau fordæmi hér að á þeim málum er tekið af Alþingi með sérstökum fjárveitingum og nægir þar að vísa til Vestmannaeyjagossins eða snjóflóðanna á Vestfjörðum. Það er alveg sérstakt málefni og viðlagatrygging var sett á laggirnar til að auðvelda mönnum viðbrögð við því.

Þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir hamförum. Frumvarpið verður að gera ráð fyrir því að ef svo illa fer að hamfarir verða höfum við kerfi til að bregðast við. Það getur enginn reiknað út hvað það kostar ef einhverjar hamfarir verða. Tökum jarðskjálftana á Suðurlandi árið 2000. Hver var kostnaður þar og hvernig var að því staðið? Þetta eru allt uppgjörsmál sem menn verða að taka afstöðu til og Alþingi verður að koma að því hverju sinni. Rannsóknarnefndin gegnir þar mikilvægu hlutverki þannig að það er alveg rökrétt hjá fjármálaráðuneytinu að segja að menn viti ekki hvaða kostnaður felist í því að framkvæma ákvæði frumvarpsins. Það fer eftir umfangi þeirra hamfara sem við stöndum frammi fyrir þegar þetta kerfi fer af stað.