Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 10:33:27 (3371)

135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[10:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Annarri umræðu um þingskapalög lauk í nótt með því að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ítrekaði tillögu sína um að endanlegri afgreiðslu málsins yrði skotið á frest fram yfir áramótin, en ef meiri hlutinn féllist á þá tilhögun mundi þingflokkurinn draga breytingartillögur sínar við þingskapafrumvarpið til baka. Þessari ósk var beint til hæstv. forseta þingsins sem jafnframt er 1. flutningsmaður að málinu.

Þetta gerum við með það í huga að mikilvægt er að sátt og samkomulag ríki um þingskapalög Alþingis. Þetta gerum við einnig í krafti þess að við teljum að slíku samkomulagi og slíkri sátt sé hægt að ná.