Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 10:39:54 (3374)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[10:39]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við göngum nú til atkvæðagreiðslu við 2. umr. um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Breytingarnar sem í þessu frumvarpi felast eru víðtækar. Þær fela það í sér að styrkja stöðu þingsins að mörgu leyti og gera þingmönnum auðveldara að rækja sitt hlutverk. Um leið verða breytingar sem fela í sér að auðveldara verður að skipuleggja störf þingsins, m.a. með takmörkunum á ræðutíma. Þessar breytingar eru mikilvægar upp á skipulagningu þingstarfa og eiga að vera til þess fallnar að tryggja markvissari og skilvirkari umræður um mál á þinginu.

Þetta mál á sér langa forsögu og hugmyndir sem birtast í þessu frumvarpi hafa verið til umræðu í þinginu um langt skeið. Það er í mínum huga ekki fagnaðarefni að málið skyldi fara í þann farveg að Vinstri grænir skildu sig frá öðrum þingflokkum í þinginu og tækju ekki þátt í afgreiðslu frumvarpsins með meiri hlutanum í allsherjarnefnd, sem samanstóð af fulltrúum hinna fjögurra þingflokkanna. Það er í sjálfu sér afar leiðinlegt að það skyldi gerast.

Hins vegar bendi ég á að í starfi allsherjarnefndar og í þeim breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar ber fram við þessa umræðu er gengið talsvert til móts við þau sjónarmið sem komu fram af hálfu vinstri grænna. Samkomulagsvilji var fyrir hendi en þær hugmyndir sem vinstri grænir boðuðu í þessum málum og birtast m.a. í breytingartillögum sem fulltrúar þeirra flytja við þessa umræðu eru það langt frá því samkomulagi sem náðist milli annarra flokka að ekki reyndist unnt að brúa það bil. Það er ekki fagnaðarefni.

Hins vegar þarf stundum að taka af skarið og koma nauðsynlegum breytingum í gegn þótt ekki náist um þær full samstaða. Í þessu máli er óvenjuvíðtæk samstaða og ég vonast til að við getum gengið frá þessum breytingum í dag með það að markmiði að efla starf þingsins, gera það skilvirkara, markvissara og tryggja betur að þingið geti rækt hlutverk sitt eins og til er ætlast af kjósendum okkar.