Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 10:44:48 (3376)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[10:44]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp skuli komið til atkvæðagreiðslu. Ég held að hér séum við að taka skref í rétta átt. Við eigum eftir að taka miklu fleiri skref en þetta er skref í rétta átt og um það hefur náðst mjög víðtæk sátt. Að vísu hefur hluti stjórnarandstöðunnar ekki viljað taka þátt í því en mjög víðtæk sátt hefur náðst um breytingarnar engu að síður. Ég er sannfærður um að þær eru heillaspor í sögu þingsins.

Ég lít svo á að með þessu skrefi séum við að leggja af stað í að bæta löggjöfina, auka möguleika þingmanna til að veita framkvæmdarvaldi aðhald frá því sem nú er og á sama hátt verði fyrirkomulagið til að gera þingsalinn enn frekari vettvang stjórnmálaumræðu dagsins. Allt eru þetta atriði sem skipta máli í að bæta og efla þingið.

Aðstaða þingsins til að sinna störfum sínum mun batna, aðstaða þingmanna til að sinna störfum sínum mun batna, aðstaða þingflokka til að sinna verkefnum sínum mun batna. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það er mikill ábyrgðarhluti að lítill hluti þingsins skuli ekki vilja koma með okkur í þetta ferðalag til að bæta og efla þingstarfið. En ég er sannfærður um að þessar breytingar munu einnig bæta starf þess þingflokks sem ekki hefur viljað vera með í för.