Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 115  —  114. mál.
Beiðni um skýrslufrá iðnaðarráðherra um kostnað við Kárahnjúkavirkjun.

Frá Álfheiði Ingadóttur, Atla Gíslasyni, Árna Þór Sigurðssyni,


Birni Val Gíslasyni, Jóni Bjarnasyni, Katrínu Jakobsdóttur,
Kolbrúnu Halldórsdóttur, Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að iðnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu þar sem eftirfarandi komi fram:
     1.      Tölulegar upplýsingar um áætlaðan heildarkostnað við framkvæmdirnar við Kárahnjúka. Fram komi samanburður við upphaflega verksamninga sem gerðir voru um framkvæmdirnar í kjölfar útboða haustið 2002 og við áætlun um aðra þá kostnaðarþætti sem ekki voru gerðir sérstakir verksamningar um eftir að framkvæmdir hófust.
     2.      Upplýsingar, þ.e. listi yfir alla verksamninga sem nema hærri fjárhæð en 10 millj. kr. og framkvæmdaraðili hefur gert vegna undirbúnings, rannsókna og framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Fram komi í yfirliti þessu upplýsingar um fjárhæð, mynt og gengi hvers verksamnings fyrir sig ásamt því hversu há fjárhæð var ætluð til greiðslu ófyrirséðs kostnaðar í viðkomandi samningi.
     3.      Upplýsingar um niðurstöðutölu viðkomandi verksamnings við lok hvers verks og verkþáttar, þ.e. hvort og þá hversu mikið frávik var frá umsaminni fjárhæð í hverju tilviki. Ef breyting er meiri en nemur því sem ætlað var til greiðslu ófyrirséðs kostnaðar fylgi skýringar.
     4.      Tölulegar upplýsingar um öll aukaverk, þar á meðal viðbótarsamninga sem framkvæmdaraðili hefur gert vegna krafna (claims) verktaka ásamt upplýsingum um útistandandi og óumsamdar kröfur verktaka. Hér er m.a. átt við viðbótarverk sem til komu vegna endurhönnunar stíflna og annarra mannvirkja, dráttar sem orðið hefur á framkvæmdum þess vegna, vatnsaga í göngum, aukins flutningskostnaðar vegna sölu rafmagns frá öðrum virkjunum þar til verklok verða við Kárahnjúka o.s.frv.
     5.      Upplýsingar um kostnað og framkvæmdaáætlun vegna mótvægisaðgerða samkvæmt ákvörðun umhverfisráðherra.
     6.      Upplýsingar um ógreiddan kostnað samkvæmt áætlun Landsvirkjunar um verklok.
     7.      Upplýsingar um áætlaðar tekjur áranna 2007 og 2008 samkvæmt upphaflegri áætlun Landsvirkjunar um raforkusölu til Alcoa-Fjarðaáls og til samanburðar rauntekjur af orkusölunni það sem af er árinu 2007 og endurskoðaða tekjuáætlun út árið og fyrir næsta ár.

Greinargerð.


    Markmið þessarar skýrslubeiðni er að fá greinargott yfirlit yfir heildarkostnað við stærstu framkvæmd Íslandssögunnar og þá umdeildustu. Upphafleg kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna var talin nema tæplega eitt hundrað milljörðum króna, en niðurstaða í útboðum var 15–20 milljörðum lægri. Munaði þar mest um stærstu verkþættina, heilborun ganga og gerð stíflu við Kárahnjúka sem ítalska verktakafyrirtækið Impregilo bauð í, töluvert undir áætlun framkvæmdaraðila.
    Hér er m.a. óskað eftir því að fram komi hvert verður tekjutap Landsvirkjunar vegna dráttar á raforkusölu frá Kárahnjúkavirkjun, áætlun/spá um greiðslu til landeigenda fyrir vatnsréttindi, upplýsingar um hugsanlega kröfu Alcoa/Fjarðaáls um skaðabætur samkvæmt raforkusamningi fyrirtækjanna vegna a.m.k. sjö mánaða dráttar á verklokum o.fl. Það er afar mikilvægt að allar kostnaðarupplýsingar við framkvæmdirnar við Kárahnjúka komi fram og séu aðgengilegar þingheimi og almenningi.