Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 353. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 755  —  353. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 44/2002, um geislavarnir.

Frá heilbrigðisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu W. Jensdóttur, Hólmfríði Grímsdóttur og Vilborgu Hauksdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Sigurð M. Magnússon, Sigurð E. Pálsson og Guðlaug Einarsson frá Geislavörnum ríkisins, Harald Briem frá landlæknisembættinu, Jónínu Guðjónsdóttur frá Félagi geislafræðinga og Eyrúnu Linnet frá Landsneti. Jafnframt bárust nefndinni 14 umsagnir.
    Í lögum um geislavarnir sem tóku gildi 7. maí 2002 er kveðið á um að eftirlitsþáttur laganna skuli endurskoðaður innan fimm ára frá gildistöku. Frumvarp þetta felur fyrst og fremst í sér tillögur um að einfalda og draga úr tæknilegu eftirliti Geislavarna ríkisins, m.a. með innflutningi, uppsetningu og breytingum á geislatækjum sem gefa frá sér jónandi geisla. Lögð er áhersla á aukna ábyrgð notenda, virk gæðakerfi og mat á geislaálagi sjúklinga. Eru þessar breyttu áherslur til þess fallnar að stuðla að því að notkun geislunar sé sem árangursríkust og geislun á fólk sé sem minnst. Einnig tekur frumvarpið mið af breyttum áherslum í geislavörnum innan Evrópusambandsins og er með því haldið áfram aðlögun íslenskrar löggjafar á sviði geislavarna að tilskipunum Evrópusambandsins um geislavarnir og framkvæmd þeirra.
    Geislunarviðbúnaður á Íslandi miðaðist við að geta brugðist við kjarnorku- og geislaslysum og tók ekki sérstakt mið af glæpsamlegri beitingu geislavirkra efna. Eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum árið 2001 og í kjölfar mikillar umræðu, m.a. á vettvangi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, hafa viðhorf til viðbúnaðar breyst og er áhersla nú lögð á að viðbúnaður taki einnig mið af vísvitandi misbeitingu geislavirkra og kjarnkleyfra efna. Mikilvægt er að lagarammi viðbúnaðar Geislavarna ríkisins taki einnig mið af breyttum aðstæðum og því leggur nefndin til breytingar á 5. tölul. 2. gr. og 9. tölul. 1. mgr. 5. gr. þess efnis að viðbúnaður Geislavarna ríkisins taki m.a. einnig til ógnar af völdum glæpsamlegrar beitingar geislavirkra efna og samhæfingar geislunarlegs viðbúnaðar til uppfyllingar alþjóðlegum viðmiðum í þeim efnum. Hér er þó ekki vísað til þátta sem eru faldir öðrum lögum samkvæmt, t.d. almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni, þegar um alvarlegt ástand er að ræða sem getur ógnað lífi og heilsu manna. Til einföldunar er jafnframt í sömu greinum felld út tilvísun í kjarnorkuvá en hugtakið geislavá sem eftir stendur felur það í sér.
    Aukin áhersla á ábyrgð Geislavarna ríkisins á viðbrögðum við ógnunum sem geta hlotist af hugsanlegri glæpsamlegri beitingu geislavirkra efna kallar á bættan tækjakost stofnunarinnar til að Ísland uppfylli viðmið Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Stofnkostnaður vegna þessa er metinn á um 27,5 millj. kr. og er þess vænst að nauðsynlegra mælitækja og búnaðar verði aflað á árunum 2009–2010. Telur nefndin brýnt að fjárveitingar til þessa verði tryggðar. Aukinn tækjakostur til að bæta viðbúnað við geislavá nýtist einnig í annarri reglubundinni starfsemi stofnunarinnar, m.a. eftirliti með notkun geislavirkra efna á sjúkrahúsum.
    Í a-lið 5. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á orðanotkun í 1. og 2. mgr. 10. gr. gildandi laga þar sem talað er um eiganda tækis. Slíkt getur verið villandi á tímum rekstrarleigu og fjölbreytilegra rekstrarforma. Með ákvæðinu er því lagt til að í stað þess að tala um að „eigandi“ sé ábyrgur fyrir notkun geislavirkra efna og geislatækja sé það „leyfishafi“. Til að gæta samræmis leggur nefndin til að sama breyting verði gerð á 8. tölul. 3. gr., 2. mgr. 12. gr., 1. mgr. 18. gr. og 19. gr. núgildandi laga. Jafnframt leggur nefndin til að nýr töluliður bætist við 3. gr. laganna þar sem hugtakið leyfishafi verði skilgreint.
    Nefndin aflaði sér sérstaklega upplýsinga um áhrif rafsegulsviða á menn og hvernig eftirliti er háttað með ójónandi geislum. Eftir að hafa kynnt sér upplýsingar þess efnis komst nefndin að þeirri niðurstöðu að eftirlit með því sé traust. Þá hafi ekki tekist að sýna fram á með rannsóknum að rafsegulsvið hafi óæskileg áhrif á heilsu manna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 6. mars 2008.



Ásta Möller,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Pétur H. Blöndal.



Árni Páll Árnason.


Siv Friðleifsdóttir.


Ellert B. Schram.



Þuríður Backman.


Álfheiður Ingadóttir.