Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 03. mars 2009, kl. 16:30:17 (4500)


136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[16:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það eru þrír hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara. Það eru, auk mín, hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir og hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson. Fyrirvarinn lýtur að því að í nefndinni var ekki rætt um eftirlaunarétt forseta Íslands. Reyndar á núverandi forseti að halda þeim kjörum sem hann hefur út kjörtímabilið en það kemur að því að það líður á enda og þá þarf að kjósa nýjan forseta.

Segjum að ungur maður verði kosinn forseti, þrítugur, 35 ára eða … (ÁÞS: Hann verður að vera orðinn 35 ára.) Ég veit það, hann verður að vera orðinn 35 ára, frú forseti. En segjum að hann sé undir fertugu, sitji eitt kjörtímabil og verði 42–43 ára þegar hann lýkur starfi sem forseti Íslands. Ekki var rætt um það í nefndinni hvað gerðist með þann mann. Það verður erfitt fyrir hann að fá vinnu. Ég geri ekki ráð fyrir að það séu mörg fyrirtæki sem vilja hafa fyrrverandi forseta í vinnu hjá sér eða þá að hann geti yfirleitt unnið sem fyrrverandi forseti sem ritari eða sem kennari eða eitthvað slíkt, ég veit ekki hvaða menntun hann hefur. Þá er spurningin: Hvernig er kjörum hans háttað? Hann mun hafa mjög lítinn lífeyrisrétt og hann verður nánast illa settur, hugsa ég. Þetta var ekkert rætt í nefndinni og það er þess vegna sem hv. þingmenn eru með fyrirvara.

Ég er með fyrirvara vegna þess að ég tel það ekki rétt sem hv. framsögumaður, Árni Þór Sigurðsson, sagði að þetta væru ekki sérréttindi, þetta væri endanleg lausn. Ég las í blöðunum í morgun að sumir lífeyrissjóðir ætluðu að fara að skerða réttindi og það er hinn bitri veruleiki kjósenda okkar. Það hendir ekki þingmenn eftir þessa endanlegu lausn, frú forseti. Þeir sitja með pottþétt réttindi, gulltryggð. Iðgjald ríkisins mun hækka eftir þörfum. Ef léleg ávöxtun verður á sjóðnum hækkar iðgjald ríkisins.

Hver skyldi nú greiða það, frú forseti, nema það fólk sem er í þessum almennu sjóðum sem á að fara að skerða, þ.e. 80% af kjósendum okkar, því að 20% eru í þessum opinberu sjóðum? Það var ég reyndar búinn að segja við fyrri umræðu málsins þannig að ég ætla ekkert að lengja málið mikið. En ég tel að það sé alls ekki búið að afnema sérréttindi eða forréttindi og það er alls ekki búið að finna einhverja endanlega lausn á þessu. Ég geri ráð fyrir því að þegar menn upplifa það að missa réttindi sín varanlega muni koma upp mikil óánægja. Þetta er ekki tímabundið ástand, þetta er varanlegt tap á réttindum vegna lélegrar ávöxtunar lífeyrissjóðanna sem töpuðu á hruninu.

Ég tel og hef talið lengi að þingmenn eigi að deila kjörum með sínum umbjóðendum. Ég flutti um það frumvarp árið 1995, að þingmenn væru með lífeyrisréttindi eins og almenningur. Það fólk sem skyldað er með lögum að borga í ákveðinn lífeyrissjóð hefur ekkert val um það, hefur ekki einu sinni möguleika á að kjósa stjórn vegna þess hvað lítið lýðræði er í lífeyrissjóðunum. Það skal greiða í ákveðinn lífeyrissjóð. Það skal hlíta þeirri ávöxtun sem stjórnin fær, sem það getur ekki kosið og þarf oft að sæta skerðingu eins og nú. Þetta er að sjálfsögðu ekki afnám sérréttinda að fullu, þetta er minnkun á sérréttindum, forréttindin eru minni en þau voru.

Ég flyt um það tillögu að ráðherrum og alþingismönnum verði heimilt að greiða í lífeyrissjóð að eigin vali enda fari starfsemin eftir lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þá kom nákvæmlega fram það sem ég átti von á í nefndaráliti meiri hlutans, sem ég skrifa undir með fyrirvara.

Hér stendur, með leyfi frú forseta:

„Þá ræddi nefndin hugmyndir um að þeir sem frumvarpið tekur til gætu valið sér lífeyrissjóð en það er í andstöðu við það fyrirkomulag að skylda almennt launafólk til að greiða lífeyrisiðgjöld í tiltekinn lífeyrissjóð.“

Þá spyr maður: Hvers vegna í ósköpunum er venjulegt launafólk skyldað til að greiða í ákveðinn lífeyrissjóð og sætta sig við að ef aldursdreifingin í sjóðnum er slæm fær það lélegan lífeyri? Ef hún er góð, eins og hún er hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna, fá sjóðfélagar góðan lífeyri. Hvers lags réttlæti er þetta? Þetta er búið að vera alla tíð í lífeyrissjóðakerfinu enda er það í rauninni undirbygging á ákveðnum völdum í þjóðfélaginu.

Af því að við höfum orðið fyrir mikilli kreppu á Íslandi finnst mér að við þurfum í kjölfarið að skoða völd verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins yfir lífeyrissjóðakerfinu eins og það leggur sig með 1.200 til 1.800 milljarða, eftir því hvort maður telur það fyrir eða eftir hrun. Það eru gífurlegir peningar og það eru gífurleg völd eins og komið hefur fram í umræðunni um jafnrétti kynjanna í stjórnum. Þetta eru sjálfvirk völd sem Alþingi hefur byggt upp með því að skylda alla landsmenn til að borga í ákveðinn lífeyrissjóð. Völd til handa verkalýðshreyfingu, handa stjórnum lífeyrissjóða sem skipaðar eru af verkalýðshreyfingunni og af Samtökum atvinnulífsins.

Ég lít mjög alvarlegum augum hlutverk verkalýðshreyfingarinnar. Ég tel að hún hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna en þetta valdakerfi gerir hana að stofnun. Hún hugsar ekki lengur eins mikið um kjör umbjóðenda sinna heldur gætir hún hagsmuna sinna við að stýra þessu gífurlega fjármagni. Það sem getið er um í nefndaráliti meiri hlutans, um að almennu launafólki sé skylt að greiða í ákveðinn lífeyrissjóð, er hluti af þessum völdum vegna þess að fólk getur hvorki kosið með höndum né fótum. Það getur ekki skipt um lífeyrissjóð og kosið þannig með fótunum og það getur heldur ekki kosið stjórnir lífeyrissjóðanna því að þær eru tilnefndar af verkalýðsfélögunum og Samtökum atvinnulífsins til helminga, yfirleitt.

Þetta er eitthvað sem við verðum að taka á í núverandi stöðu. Ég sé það sem verkefni í kjölfar þessa hruns að þingmenn taki á því að fólk geti valið sér lífeyrissjóð eða alla vega kosið stjórn í sinn lífeyrissjóð. Kosið það fólk sem það treystir til þess að fara með ævisparnað sinn og það sem það treystir mest á í ellinni.

Minn fyrirvari er því tvenns konar: Annars vegar hugleiðingin um forseta Íslands og hins vegar flyt ég breytingartillögu um að þingmenn geti valið sér lífeyrissjóð, deilt kjörum með umbjóðendum sínum, með því fólki sem kaus þingmennina. Þannig vil ég sjá það og hef alltaf viljað sjá það, ég er á móti svona forréttindum. Það sem mundi koma skýrar í ljós við tillögu mína — því að ég geri ráð fyrir því að ef menn velja sér lífeyrissjóð sem er með lakari lífeyrisrétt, fái þeir hækkun á launum — er hvers virði þessi lífeyrisréttur er og það ógagnsæi sem er í kerfinu í dag hyrfi.

Það er reyndar ýmislegt fleira sem ég benti á í þeirri umræðu eins og t.d. varðandi vildarpunkta flugfélaga, dagpeninga og sitthvað fleira sem gjarnan mætti skoða, og starfskostnaðinn sem þingmenn taka. Það eru hvorki tekjur né gjöld. Ég hef aldrei getað þegið slíkt og þess vegna beitti ég mér fyrir því á sínum tíma að menn gætu hafnað þessum tekjum. Ég hef hafnað þeim alla tíð þannig að ég hef aldrei tekið þennan 60 þúsundkall á mánuði sem flestir þingmenn taka.

Fyrst við tölum um gagnsæi og réttlæti og svo um endanlega lausn, ættu menn að skoða þetta. (Gripið fram í.) Hv. framsögumaður talaði um að þetta væri endanleg lausn á vandanum varðandi sérréttindin. Það er ýmislegt eftir sem gjarnan mætti skoða.