Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 03. mars 2009, kl. 16:55:48 (4504)


136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[16:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hnýt dálítið um þetta undarlega orðalag eins og það að ég hafi lægt veðrið í kolli mínum. Ég næ því ekki. Ég stóð frammi fyrir því ákveðna vali að allir þingflokksformenn á þingi, jafnt Samfylkingar sem annarra, höfðu ákveðið að leggja frumvarpið fram. Svo hlupust sumir undan merkjum af ótta við kjósendur o.s.frv. Ég greiddi þessu atkvæði vegna þess að ég taldi að þetta væri ákveðin stöðlun sem gerði eftirleikinn auðveldari, að ná fram þeirri almennu lækkun sem ég tel nauðsynlega. Þingsályktunartillaga mín gengur út á að það sé skýrt hvers virði þessi réttindi eru.

Ég er ekkert að leggja mat á það hvort þingfararkaupið sé nægilega hátt eða ekki og það geta menn rifist um. Mér finnst að þau kjör sem við höfum eigi að vera uppi á borðinu og vera gegnsæ. Það sem mín tillaga gerir, hvort sem hún er fyrir Pétur Blöndal einan eða fyrir aðra þingmenn almennt — ég vil ekki taka frá þeim þann kaleik að geta deilt kjörum með sínum kjósendum, sem mér heyrist hv. þingmaður ekki vilja gera, þá kemur í ljós hvers virði þessi réttindi eru í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Ég tel mjög mikilvægt og það er kall tímans að gagnsæi sé í hlutum og eins með þessa starfskostnaðargreiðslu, ég vil að hún sé afnumin eða þá að menn fái greitt fyrir raunverulegan starfskostnað eins og margir utanbæjarþingmenn eru virkilega með. Þeir nýta þessa starfskostnaðargreiðslu fyrir starfskostnaði en þeir sem eru í Reykjavík, ég get ekki séð að ég geti eytt 60 þús. kr. á mánuði í ég veit ekki hvað. Þeir sem ekki nota það í einhvern kostnað fá þetta sem laun. Þess vegna er þetta ýmist kostnaður eða laun. Mér finnst það alveg fráleitt.