Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 03. mars 2009, kl. 17:00:25 (4506)


136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þau skoðanaskipti sem farið hafa fram um þetta mál og vil kannski aðeins bregðast við nokkrum þáttum. Ég ætla þó að halda mig við efnisatriði frumvarpsins sem hér er til umræðu og ekki fara út í aðra sálma. Vafalaust gefst tilefni til þess síðar.

Frumvarpið fjallar um afnám eftirlaunalaganna svokölluðu frá 2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, með síðari breytingum, og einnig um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gert grein fyrir fyrirvara sínum varðandi málið og fyrir breytingartillögunni sem hann flytur við málið. Það er rétt að þau viðhorf sem hann reifar hér komu fram í umfjöllun í nefndinni og hann gerði henni grein fyrir sjónarmiðum sínum. Breytingartillaga hans kemur því ekki á óvart, þessi viðhorf hafa komið fram áður. Hann gengur býsna mikið út frá þeirri forsendu að almennt sé Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins forréttindasjóður. Þegar ég segi að nú verði, verði þetta frumvarp samþykkt, sérréttindi þingmanna, ráðherra og fleiri endanlega leiðrétt er ég að vísa til þess að þessum hópum verður skipað í lífeyrissjóð með opinberum starfsmönnum. Þeir verða ekki með nein sérstök sérréttindi umfram það sem almennt gildir í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Það er síðan annar handleggur að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur oftsinnis haldið þeirri skoðun sinni fram hér að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins í heild sinni sé sérréttindasjóður og þar er hann að tala um alla starfsmenn ríkisins og væntanlega alla starfsmenn sveitarfélaganna líka því að þeir greiða í Lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga sem er sambærilegur við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hann er því að tala um býsna stóran hóp launafólks og segir að sá hópur sé einhver sérstakur sérréttindahópur. Í mörgum tilvikum er um það að ræða að lífeyrisréttindi eru samningsatriði í kjarasamningum, a.m.k. að hluta til, og mér finnst hv. þingmaður fara býsna frjálslega í þetta mál.

Menn geta auðvitað farið í þá umræðu, og velt því fyrir sér, hvort samræma eigi öll lífeyrisréttindi landsmanna, hvort sem þeir eru starfsmenn ríkis eða sveitarfélaga eða á almennum vinnumarkaði. Sú umræða á rétt á sér og ég get tekið undir það sem margir hafa sagt að vissulega væri eðlilegt að samræma lífeyriskjör allra landsmanna. Það verður hins vegar ekki gert með breytingum á þessum lögum og það verður ekki gert nema í einhverju heildarsamhengi og í samvinnu og samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, við samtök launafólks, bæði á opinbera markaðinum og almenna markaðinum, og við sveitarfélögin og samtök atvinnulífsins. Það er algerlega ljóst.

Þau viðhorf komu fram í efnahags- og skattanefnd frá fulltrúa einna heildarsamtaka opinberra starfsmanna að þau væru ekki andvíg því að lífeyrisréttindi landsmanna væru samræmd og þau væru eins hjá öllum. Hann lýsti jafnframt því viðhorfi að samræma ætti lífeyrisréttindi upp á við frekar en að taka lífeyrisréttindi þeirra sem eru starfsmenn ríkisins og færa þau niður. Það verður auðvitað ekki gert án þess að um það sé samið og það hefði að sjálfsögðu í för með sér breytingar á kjörum þeirra að öðru leyti því að í þessum hlutum er ákveðið samhengi.

Ég er ekki sammála því viðhorfi sem hér kemur fram að enn sé verið að viðhalda sérréttindum þingmanna. Ég lít ekki svo á að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins eða lífeyrissjóðir sveitarfélaga séu einhverjir sérréttindasjóðir. Þeir eru almennir lífeyrissjóðir fyrir þá sem starfa hjá opinberum aðilum. Ég tel eðlilegt, og það gerir ríkisstjórnin líka, sem flytur frumvarpið, að lífeyrisréttindi ráðherra, alþingismanna, hæstaréttardómara og forseta Íslands séu sambærileg við það sem gerist hjá starfsmönnum ríkisins. Um þetta getum við auðvitað deilt en það breytir því ekki að með frumvarpinu er verið að afnema þau sérlög sem giltu um lífeyrisréttindi þeirra hópa sem við erum að fjalla um. Ég tel að frumvarpið sé endanleg leiðrétting á þeim og stend við það.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði líka grein fyrir því sjónarmiði sínu, sem kemur fram í breytingartillögu hans, að ráðherrum og alþingismönnum verði heimilt að greiða í lífeyrissjóð að eigin vali. Hann segir að þeir eigi að deila kjörum með þjóðinni, með almenningi, (PHB: Með kjósendum sínum.) með kjósendum sínum. En kjósendur sem hv. þingmaður vísar til geta ekki valið sér lífeyrissjóð. Hv. þingmaður er að leggja til sérstök sérréttindi fyrir þennan hóp umfram það sem gerist hjá kjósendum þeirra og málflutningur hans gengur ekki upp. Hann er beinlínis að leggja það til að um ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómara gildi sérstakt ákvæði um að þeir geti valið sér lífeyrissjóð og séu ekki seldir undir sömu sök og almennir landsmenn sem er skipað í lífeyrissjóð eftir tilteknum leikreglum. Ég tek ekki undir þessa breytingartillögu og tel að hún sé til þess fallin að búa á ný til sérréttindi fyrir þingmenn og ráðherra. Við erum þrátt fyrir allt að freista þess að afnema slíkt með frumvarpinu sem hér er til umræðu.

Ég legg á það ríka áherslu, frú forseti, að frumvarpið verði samþykkt óbreytt eins og hv. efnahags- og skattanefnd gerir tillögu um. Ég er sannfærður um að verði frumvarpið að lögum sé ákveðnum kafla lokið, og ég leyfi mér að segja vondum kafla, skugga sem hefur svifið yfir þessu fyrirkomulagi lífeyrismála ráðherra, alþingismanna, hæstaréttardómara og forseta Íslands.

Hvað snertir forseta Íslands sérstaklega — og hv. þingmaður vakti máls á því þar sem hann ræðir þann möguleika, sem er auðvitað fræðilegur, að ungur maður, t.d. 35 ára gamall maður, eða kannski lítið eldri, verði kosinn forseti Íslands, og sitji eitt kjörtímabil, hann muni ekki fá neina vinnu eftir það og hafi þá lítil lífeyrisréttindi. Þessu sjónarmiði gerði hv. þingmaður grein fyrir hér í ræðustól og sagði að fyrirvari hans á nefndarálitinu lyti m.a. að því atriði. En ég minnist þess ekki að það viðhorf hafi komið fram í umræðum í nefnd og því finnst mér sá fyrirvari sem hann gerði við nefndarálitið ekki eiga við — fyrirvarinn hlýtur að lúta að efnisatriðum sem hv. þingmaður hefur látið koma fram á vettvangi eða í umræðum í nefnd. Ég minnist þess ekki að þetta hafi komið fram en það kann að vera að mér hafi yfirsést það.

Þetta er viðhorf eða sjónarmið sem er sjálfsagt að gefa gaum. Ég tel að menn hafi þá nægan tíma til að fjalla um það í framhaldinu. Fátt bendir til þess að breyting verði á skipan í embætti forseta Íslands alveg á næstu mánuðum eða missirum. Kjörtímabil núverandi forseta rennur út árið 2012 ef ég man rétt. Að sjálfsögðu er hægt að ræða það sérstaklega ef menn vilja hafa einhver sérstök ákvæði um forseta Íslands. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að um forseta Íslands gildi sömu reglur og gilda um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ég hef verið sammála því viðhorfi að svo ætti að vera. Ef upp koma slík tilvik, sem hv. þingmaður nefndi, kann vel að vera að setja þyrfti undir slíkan leka ef menn telja það leka yfirleitt. En sú umræða á algerlega eftir að eiga sér stað og menn þurfa þá að reiða fram öll sjónarmið í því efni. Ég útiloka ekki að menn geri það á síðari stigum en það breytir að mínum dómi engu um samþykkt þessa frumvarps og þeirra sjónarmiða og þeirra röksemda sem liggja á bak við það.

Að svo mæltu, frú forseti, vil ég þakka fyrir þau skoðanaskipti sem átt hafa sér stað um þetta mál og ítreka þá ósk að frumvarpið verði samþykkt eins og tillaga er gerð um í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar.