Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 03. mars 2009, kl. 17:10:59 (4507)


136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[17:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst 11,5% iðgjald vera hærra en 8%. Framlag í almennu lífeyrissjóðina af hendi atvinnurekenda er 8%. Framlag ríkisins til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er 11,5%, er sennilega of lágt og mun sennilega hækka upp í 13,5% áður en langt um líður sem þýðir 69% hærra framlag atvinnurekanda þegar um er að ræða ríkið eða sveitarfélag en þegar um almennt fyrirtæki er að ræða. Þetta eru því ekki sömu réttindi sem menn eru að tala um. Fyrir utan þetta eru réttindi föst en iðgjaldið er breytilegt hjá ríkinu en öfugt hjá almennu sjóðunum, þar geta menn þurft að sæta því að réttindi verði skert.

Ég vil taka það fram, svo að ekki komi annar blær á þetta, frú forseti, að ég styð frumvarpið. Ég er alveg til í að ljúka þessum vonda kafla eins og hv. þingmaður, framsögumaður, nefndi. Ég lít á það sem ákveðinn sigur, ákveðið skref í þá átt að réttindi verði almenn. Nefndin hefði t.d. átt að skoða það að þingmenn greiddu almennt til Lífeyrissjóðs verslunarmanna, hann er dæmigerður fyrir þessa almennu sjóði sem 80% af þjóðinni greiða í og verða að greiða í. Talandi um það að samræma og breyta lífeyrisréttinum almennt þá er fyrsta skrefið í því að samþykkja breytingartillögu mína því að þá kemur í ljós hvers virði réttindi í LSR eru og þá getum við farið að tala saman um það hvort menn vilji hækka réttindi alls landslýðs, og þar með álögur á fyrirtækin eða sjóðfélagann, eða hvort menn vilja skerða réttindi opinberra starfsmanna.