Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 03. mars 2009, kl. 17:22:16 (4512)


136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir. Ég vil í fyrsta lagi segja að ég get ekki verið sammála honum í því að hér sé verið að gera veigamiklar breytingar án umræðu vegna þess að ég tel að þetta mál hafi fengið mikla umræðu í þinginu og á vettvangi þingnefndarinnar. Ég ímynda mér að hann sé að gera því skóna að ekki sé almenn vitneskja um að verið sé að gera meira en að breyta lífeyriskjörum ráðherra og þingmanna, heldur líka annarra hópa, þ.e. hæstaréttardómara og forseta Íslands, ef hóp skyldi kalla. Kannski sé ekki almenn vitneskja um það og það hafi ekki komið nægilega skýrt fram í umræðunni. Ég skal ekki um það segja en að mínu viti er eðlilegt að þeir fylgist að í þeim breytingum sem hér er verið að gera og ég tel að þær hafi fengið ágæta umfjöllun, bæði nú og svo hefur málið í heild sinni verið rætt mikið í samfélaginu á undanförnum árum, allt frá því að lögin voru sett 2003.

Ég er algerlega sammála honum, og það kom fram í síðari ræðu minni, af því að ég nefndi sérstaklega að þetta væri mál sem ætti sér lengri forsögu heldur en til 2003 og líka væri verið að tala um það sem hefði verið í gildi fyrir þann tíma. Og að hér séu pólitískar reykbombur þegar hann vísar sérstaklega til þess að nú geti hugsanlega einhverjir þingmenn, kannski stærsti hópurinn, farið í vinnu og verið á lífeyrisgreiðslum samhliða að þá er verið að færa réttindi þeirra í sama farveg og gildir í A-deild LSR með sömu réttindum og skyldum, þar með talið þessari. Þetta er í mínum huga algerlega ljóst og hefur komið fram í umfjöllun á vettvangi nefndarinnar.

Hvað kjararáð varðar vil ég segja (Forseti hringir.) að ég er ekki tilbúinn til að svara því hér og nú að mér finnist eðlilegt að færa þessar (Forseti hringir.) ákvarðanir til kjararáðs en ég held að ég verði að áskilja mér rétt til að svara síðari spurningunni í síðara andsvari, ef hv. þingmaður sér til þess að það muni eiga sér stað.