Málefni aldraðra

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 16:54:09 (5411)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[16:54]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Í frumvarpinu er lagt til að árlegt gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað um 6% eða úr 7.103 kr. í 7.534 kr.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2009 eru gjöld í Framkvæmdasjóð aldraðra áætluð 1.368 millj. kr. en voru 1.276,4 millj. kr. í fjárlögum síðasta árs. Hækkunin sem ég mæli fyrir er í samræmi við hækkun byggingarvísitölu frá því í desember 2006 til desember 2007.

Samkvæmt kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að árið 2009 verði gjaldendur 185.133 og tekjur sjóðsins hækki um 91,7 millj. kr. á greiðslugrunni. Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og eru á aldrinum 16–70 ára. Í lögum um málefni aldraðra er kveðið á um þá fjárhæð sem lögð skal á gjaldendur ár hvert og kemur gjaldið árlega til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga. Breyting á fjárhæðinni krefst breytinga á lögum um málefni aldraðra, eins og ég sagði áðan. Þá er gert ráð fyrir þeirri hækkun sem ég mæli fyrir í fjárlögum þessa árs.

Fjárhæð gjaldsins í lögum um málefni aldraðra hefur jafnan verið breytt samhliða samþykkt fjárlaga. Af því varð hins vegar ekki í desember sl. og er því nauðsynlegt að fara fram með slíkt frumvarp núna, eigi hækkunin að koma til framkvæmda á þessu ári.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félags- og trygginganefndar.