Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Fimmtudaginn 02. apríl 2009, kl. 11:34:33 (6370)


136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[11:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég styð frumvarpið sem við greiðum hér atkvæði um enda greiðir það fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu og er rökrétt skref í þá átt sem við sjálfstæðismenn héldum m.a. á árinu 2006 og 1999, hygg ég, í samstarfi við Framsóknarflokkinn.

Við höfum rætt þetta mál og komið sjónarmiðum okkar á framfæri og ég sé að þau hafa skilað sér. Allir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar í salnum greiða nú málinu atkvæði. Það er annað en gerðist árið 2006 þegar m.a. hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, sem ekki hefur tekið þátt í þeirri merku umræðu sem hefur átt sér stað í dag og í gær, greiddi atkvæði gegn endurgreiðslum til kvikmyndaiðnaðarins. Það væri athyglisvert að fá það upplýst hvað það var sem leiddi til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur snúið af leið og skipt um skoðun í þessu máli.