Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. apríl 2009, kl. 14:45:03 (7375)


136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[14:45]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vitnaði í orðræðu kröfuhafa um það að íslensk stjórnvöld séu að tefja fyrir lausn mála, þannig blasti það við. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir á væntanlega sömu blöð og þau sem ég las þetta upp af, hún fletti hér stórri möppu. Ég las beint upp úr því sem kröfuhafar voru að segja, málið blasti þannig við.

Varðandi slitastjórnirnar þá er það alveg rétt að þær hafa hlutverk sem skiptir alla máli. Það breytir því ekki að það er annað hlutverk sem frumvarpið gerir ráð fyrir, og við gerum öll ráð fyrir, að sé sinnt og það er að hámarka virði eigna bankanna og vinna með kröfuhöfunum að því. Það eru sameiginleg markmið. Kröfuhafar bentu reyndar líka á að það eru þeir sem greiða laun allra þessara aðila, bæði slitastjórnar og skilanefnda. Það er því verið að leita að lausn sem er nokkurs konar salómonslausn í málinu þannig að skilanefndirnar gætu áfram starfað með kröfuhöfunum en að sama skapi færðist málið í réttara far með því að skipa svokallaðar slitastjórnir vegna þess að það er auðvitað sérstakt verkefni sem nú þarf að sinna vel, þ.e. verkefni þeirra.

Varðandi það að réttarfarsnefnd hafi komið að því að semja frumvarpið þá er það vissulega fagnaðarefni að við fengum greinilega mjög góða aðila til þess. Þeir hafa nýtt tímann vel frá því í nóvember til þess að setja fram ágætisfrumvarp, og ég set mig ekki upp á móti neinu í frumvarpinu, það er bara breytingartillaga 2.b ef ég man rétt.