Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. apríl 2009, kl. 14:47:13 (7376)


136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[14:47]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, bæði þeir sem eru á nefndarálitinu og þeir sem ekki voru viðstaddir, styðjum frumvarpið og teljum nauðsynlegt að það fái afgreiðslu hér á þinginu sem fyrst.

Það eru þrjú atriði sem ég vildi þó aðeins nefna í þessu samhengi. Í fyrsta lagi það að við skulum á þessum tíma vera að gera breytingar á löggjöf um fjármálafyrirtæki hvað þessi atriði varðar. Ekki eru nema fimm ár frá því að við innleiddum tilskipun frá Evrópusambandinu um breytingar á þessum kafla laganna sem voru út af fyrir sig nýmæli. Það hefur hins vegar komið í ljós að þær breytingar sem við gerðum voru ekki fullnægjandi, og maður veltir því fyrir sér hvernig standi á því. Í þeim breytingum sem þá voru gerðar var gert ráð fyrir því að heimaríkin réðu þessum málum sjálf en samt sem áður var tilgangurinn að ná samræmi á milli ríkja innan EES-svæðisins. Það virðist því eitthvað hafa skolast til og maður veltir því fyrir sér hvers vegna það gerðist, hvort við höfum ekki verið nægilega vel á vaktinni hvað þessa löggjöf varðar. Er ég þá sérstaklega að tala um slit á fjármálafyrirtækjum.

Ég fellst á það að hafa þurfi annars konar ákvæði og annars konar löggjöf í einhverjum atriðum en um önnur fyrirtæki vegna eðlis og sérstöðu fjármálafyrirtækja. En ég undrast það að við höfum ekki verið búin að koma hlutum betur fyrir hvað þetta varðar fyrr en nú er. Það var ekki tímapunkturinn til að gera það þegar neyðarlögin voru sett, þetta er eitthvað sem við hefðum átt vera búin að gera fyrir löngu.

Annað atriði sem ég vildi nefna varðar gildistímabil neyðarlaganna. Í bráðabirgðaákvæði IV í frumvarpinu er gert ráð fyrir að neyðarlögin gildi til ársloka 2009 en nefndin leggur reyndar til að framlengja það tímabil til 1. júlí 2010. Ég hef nokkrar áhyggjur af þessu, að við skulum yfirleitt vera að setja tímamörk á þetta, en er auðvitað sáttur við að lengt skuli vera í þeim mörkum. Það gefur okkur lengri tíma til að íhuga það hvernig við viljum haga þessum málum. Ástæðan er sú að málsmetandi menn á þessu sviði innan Evrópusambandsins, í löndum sem lent hafa í bankakrísu, fjármálakrísu — og þá er ég að tala um aðila sem komu beint að þeirri krísu og eru enn í dag í embættum sem hafa mikið með þessi mál að gera — hafa tjáð mér, og það fyrir þó nokkrum mánuðum, í raun og veru í upphafi þessara erfiðleika okkar, að þeir sjái mjög mikið eftir lagaákvæðum sem voru í gildi hjá þeim þegar þeirra bankakrísa var í gangi en hafa núna fallið úr gildi, að hafa þau ákvæði ekki tiltæk til þess að nýta þau í því ástandi sem ríkt hefur í Evrópu í vetur.

Fjármálakrísur gera ekki boð á undan sér. Ef menn hafa ekki tækin, ef menn hafa ekki löggjöfina til þess að nýta og bregðast við þá þurfa menn að setja neyðarlög og ég held að það hljóti að vera verra. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort ekki þurfi að vera í gildi ákvæði sem heimila yfirvöldum að grípa inn í með meira afgerandi hætti en með því að svipta fjármálafyrirtækin starfsleyfi eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi hér áðan.

Það getur auðvitað verið að þetta orki að einhverju leyti tvímælis og það geti verið einhver ógnun fyrir fjármálafyrirtækin ef yfirvöld hafa slíkar valdheimildir. En þá verðum við líka að hafa í huga að þessi starfsemi hefur skákað í því skjóli að hið opinbera þurfi — liggur mér við að segja — jafnan að grípa inn í þegar eitthvað verulega stórt bjátar á. Ef menn ætlast til þess að hið opinbera geti gripið inn í á fjárhagslegum forsendum verður það að hafa lagaheimildirnar til þess að grípa inn í og taka í taumana á starfseminni. Ég held því að við þurfum að íhuga þetta og ég held að þetta þurfi að haldast í hendur. Við getum auðvitað haft kerfið þannig að það sé þá alveg klárt að hið opinbera grípi ekkert inn í og fjármálafyrirtækin séu sjálf ábyrg fyrir því sem þau gera. Ég er sannfærður um það að ef staðan væri sú mundu þau hegða sér öðruvísi og hefðu hegðað sér öðruvísi en þau gerðu. Sú breyting sem lögð er til gefur okkur alla vega betri tíma til þess að íhuga þetta og þá getum við gert það í samhengi við það sem gerist annars staðar í heiminum og hvers konar regluverk við erum þá að horfa fram á á vorþingi 2010.

Þriðja atriðið sem ég vildi nefna varðar fyrirvara okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem ritum undir nefndarálitið en það varðar c-lið 2. gr. breytingartillagnanna um skilanefndirnar og sólarlagsákvæðið á starfsemi þeirra. Við höfum áhyggjur af því að þetta ákvæði geti haft áhrif á lánardrottna sérstaklega, að þeir verði órólegir vegna þess að þeir sjái fyrir sér að hugsanlega verði breytingar á skilanefndunum sem þeir telji óhagstæðar, að nýir aðilar séu að koma að þessu sem ekki hafi komið að þessu áður. Við höfum áhyggjur af þessu vegna skilanefndanna og þeirra verkefna sem þeim eru falin samkvæmt frumvarpinu, ekki vegna þess að við höfum áhyggjur af aðkomu slitastjórnanna, þær hafa ákveðin og tiltekin verkefni sem ég held að lánardrottnarnir þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af. En það eru þau verkefni sem frumvarpið gerir ráð fyrir að skilanefndirnar hafi sem við teljum að skipti máli í þessu sambandi.

Afstaða okkar byggist ekki á því að við séum sérstaklega að gæta hagsmuna skilanefnda eða þeirra sem þar sitja. Við erum auðvitað sammála öðrum nefndarmönnum í því að æskilegt væri að einungis eitt skipulag væri í gangi á hverjum tíma. En aðstæður hafa orðið þessar og leitt okkur í þessa átt og það sem skiptir mestu máli fyrir okkur í dag hvað bankana varðar er að hafa gott samstarf og ná góðu samkomulagi um niðurstöðu hvað varðar framtíð bankanna við lánardrottnana. Við höfum því þennan fyrirvara varðandi þessa breytingartillögu. Reyndar var rætt um það í nefndinni að við mundum fá málið aftur til umræðu milli 2. og 3. umr. og eins og fram hefur komið hjá hv. formanni þá verður það gert. Ég held að það sé skref í rétta átt að draga þessa tillögu til baka á meðan við erum að vinna í þessu frekar.