Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. apríl 2009, kl. 14:58:38 (7379)


136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[14:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við það sem félagar mínir úr viðskiptanefnd, hv. þm. Árni M. Mathiesen og Guðfinna Bjarnadóttir, hafa lagt inn í umræðuna og eins fór formaður nefndarinnar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, vel yfir ýmsa þætti málsins. Ég vil bara undirstrika vegna þess fyrirvara sem ég gerði við nefndarálitið í nefndinni að það er vegna sömu þátta og fram hafa komið varðandi breytingartillögur og stöðu skilanefndanna. Ég tel mikilvægt eins og þeir sem hér hafa talað að málið gangi til nefndar milli 2. og 3. umr. þannig að við eigum þess kost að fara yfir þær athugasemdir sem borist hafa frá aðilum sem tengjast þessu máli og að við séum ekki að hrapa að neinu.

Það er auðvitað ljóst eins og kom fram í framsöguræðu formanns nefndarinnar að þetta frumvarp hefur fyrst og fremst í för með sér breytingar á ýmsum ákvæðum þeirra neyðarlaga sem sett voru í nóvember og við stóðum saman að í þinginu að setja að mestu leyti. Meðganga þess máls var harla stutt hér í þinginu og menn lögðu mikla áherslu á það á sínum tíma að ljúka þeirri umfjöllun hratt.

Það er óhætt að segja að fljótlega eftir þá afgreiðslu vöknuðu efasemdir hjá aðilum utan þings og eins hjá ýmsum þingmönnum, m.a. nokkrum úr þáverandi meiri hluta viðskiptanefndar, um að allir þættir málsins hefðu verið skoðaðir til hlítar. Við settum okkur nokkur í samband við þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra og ráðuneytið um að tilteknir þættir yrðu skoðaðir með sérfræðingum ráðuneytisins og færustu sérfræðingum á sviði réttarfarsmála. Það lá fyrir að ákveðnir agnúar voru á þessari nýsamþykktu löggjöf sem þurfti að laga og var sú vinna sett í gang. Má segja að frumvarpið sem hér liggur fyrir sé afrakstur þeirrar vinnu sem reyndar varð töluvert víðtækari en við héldum þegar við lögðum upp með þessar ábendingar til ráðuneytisins á sínum tíma.

Þetta mál gengur út á að reyna að laga regluverkið á þessu sviði að óvenjulegum aðstæðum. En um leið og það þarf að taka sérstakt tillit til stöðu fjármálafyrirtækja í þessum vandræðum liggur fyrir að það þarf að hafa þætti í löggjöfinni sem njóta viðurkenningar á alþjóðavettvangi þannig að erlend yfirvöld og dómstólar taki mark á því og kannist við þær reglur sem fyrir hendi eru. Frumvarpið gengur út á að skapa lagaramma sem hentar þeim aðstæðum sem eru hér fyrir hendi en um leið að hafa inni þá þætti sem skipta máli svo að löggjöfin sé tekin gild annars staðar og búum gömlu bankanna þannig veitt sú vernd gagnvart málssóknum og fullnustugerðum sem nauðsynlegt er.

Eins og komið hefur í ljós síðan við fjölluðum um málið í nefndinni eru þarna ríkir hagsmunir ýmissa aðila, m.a. erlendu kröfuhafanna, og hafa þeir látið í ljós ýmis sjónarmið um þetta.

Ég legg áherslu á það að lokum að við förum yfir þau sjónarmið í þessari nefnd og tökum afstöðu til þeirra í góðri sátt eins og þetta mál hefur verið unnið allan tímann. Það hefur verið góð sátt í nefndinni og vilji til þess að leiða þau mál til lykta sem upp hafa komið. Ég held að það sé mikilvægt í þessu sambandi.