Skattlagning kolvetnisvinnslu

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:13:26 (1951)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg óhætt að taka undir með hv. þingmanni um þau meginsjónarmið sem fram koma hjá honum. En eins og hann gat um sjálfur hefur þetta þing verið um margt óvenjulegt vegna þeirra aðstæðna sem verið hafa hjá okkur í haust.

Þó að þau mál sem hér um ræðir tengist ekki beinlínis því ástandi og að ekki sé verið að biðja um afbrigði við þau í dag til að keyra þau í gegn á fáum sólarhringnum eru þetta mál sem tafist hafa í vinnslu í ráðuneytunum vegna þess að þar hafa menn verið í önnum vegna þess óvenjulega ástands sem hér hefur verið. Ástæðan fyrir því að beðið var um afbrigði til þess að þau gætu komist á dagskrá í dag var einfaldlega til þess að nýta daginn. Það var ekki margt á dagskrá. Þetta er gert til að flýta fyrir því að þessi mál geti komist til nefndar, fái fullnægjandi skoðun þar og, ef þingið kýs svo, til að þau verði afgreidd fyrir jólin því að mörg þeirra eru þess eðlis að það þyrfti að gera.

En eins og fram kom hjá hv. þingmanni hefur það auðvitað þau áhrif að 1. umr. verður kannski ekki eins notadrjúg eins og ella hefði orðið en það gerir það hins vegar að verkum að starfið í nefndinni ætti að geta orðið meira. Ég vil biðja bæði hv. þingmann sem hóf máls á þessu og aðra hv. þingmenn að sýna þessu sjónarmiði skilning í störfum sínum.