Skattlagning kolvetnisvinnslu

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:15:24 (1952)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:15]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef miða á við venjulegan gang mála í þingnefndum mundi meðferð málsins taka svona þrjár, fjórar vikur í þingnefnd og málið verða afgreitt einhvern tíma undir lok janúar, það væri svona hinn venjulegi gangur í þinginu í afgreiðslu á máli sem þessu. Hér er ætlast til þess að þetta verði að lögum 1. janúar, sem þýðir að það verður að afgreiða það núna áður en þingið fer heim í jólaleyfi, hvenær sem það nú verður. Það er ljóst að meðferð málsins er ekki nema brot af þeim tíma sem venja er.

Því til viðbótar sé ég ekki þörfina á því að taka þetta mál fyrir í dag í stað þess að ræða það á morgun, ég átta mig bara ekki á því. Af hverju var ekki hægt að leyfa okkur að skoða þessi þingskjöl sem okkur voru sýnd hérna klukkan hálftvö í dag og geta kynnt okkur þau til morguns og taka þau þá til umræðu? Ég átta mig ekki á því, virðulegi forseti, mér finnst þetta eiginlega algjörlega fráleitt.

Ég frétti af þessum fundi fyrir rúmri klukkustund, að til stæði að setja nýjan fund og taka slatta af málum inn sem var verið að dreifa í dag. Það er bara ekkert í lagi, virðulegi forseti, að þingið starfi svona. Þingið hefur sett sér þá reglu að starfa með öðrum hætti og það á í meginatriðum að halda sig við það. Auðvitað eiga menn að víkja frá því eftir því sem efni standa til og þingsköp leyfa þegar ástæða er til og það hef ég farið yfir. Mér finnst bara menn vera komnir of langt inn á þessar brautir, virðulegi forseti.