Skattlagning kolvetnisvinnslu

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:17:12 (1953)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan finnst mér sjónarmið hv. þingmanns alls ekki óeðlilegt en ef við tökum þetta mál sérstaklega þá ber þess að geta að það er ekki alveg ókynnt í umræðunni, efnisatriðin hafa verið kynnt opinberlega og menn eiga því ekki að koma alveg kaldir að málinu. Eins og ég sagði áðan að með því að koma málinu hratt og örugglega inn í þingið er frekar verið að hjálpa til við það að þingnefndin fái góðan tíma til þess að skoða málið þó að ég viðurkenni að tímaramminn sé þröngur, en við erum þó innan þess ramma að gera það sem við getum til þess að nefndin fái sem bestan tíma.