Skattlagning kolvetnisvinnslu

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:24:07 (1955)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt sem komið hefur fram, bæði hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Kristni H. Gunnarssyni varðandi það hvernig mál koma fyrir þingið þessa dagana og ég tel rétt að við þingmenn séum á varðbergi hvað þetta varðar og látum í okkur heyra um hvernig vinnubrögð við viljum viðhafa.

Ég verð samt að gera athugasemdir við ummæli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um umrætt mál vegna þess að hún fór að þvæla inn í það mál vinnubrögðum um frumvarp sem nú liggur fyrir hjá iðnaðarnefnd og hefur legið þar í nokkrar vikur, um kolvetnisvinnsluna. (Gripið fram í: Nokkrar vikur?) Á því máli, virðulegi forseti, er engin dagsetning. (Gripið fram í.) Það er engin dagsetning á því máli, ef ég má tala, virðulegi forseti, það er engin dagsetning á því hvenær því eigi að vera lokið og það mál er í eðlilegri vinnslu innan iðnaðarnefndar og það er ekki búið að ákveða að eigi að fá einhverja sérstaka flýtimeðferð. Við erum að reyna að vinna það hratt og örugglega og málefnalega og fara í gegnum öll efnisatriði þess eins og við teljum best.

Virðulegi forseti. Jafnframt frábið ég mér að hv. þingmaður sé að tala um vinnubrögð í því máli þegar vinna við það fer fram með efnislegum hætti og engin tímasetning hefur verið sett á hvenær nefndin ljúki vinnu sinni í því.

Virðulegi forseti. Varðandi það mál sem hér er til umræðu þá er sagt að einhver flýtimeðferð hafi átt sér stað, að það vanti gögn og annað. Ég er hér með skýrslu frá því í mars 2007, en á þeim tíma var hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, mjög góða skýrslu um þetta mál frá A til Ö, þannig að þetta er ekki að koma algjörlega nýtt til þingmanna nú. Við fjölluðum um þetta þann vetur í iðnaðarnefnd og hér stendur líka, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að það væri óskað eftir athugasemdum við skýrsluna (Forseti hringir.) sem er leiðarvísir þeirrar vinnu sem er í gangi. Hér hefur því ekki (Forseti hringir.) verið unnið með neinum óeðlilegum hætti, virðulegi forseti.