Skattlagning kolvetnisvinnslu

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:26:28 (1956)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:26]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara segja við hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að mér þykir afskaplega leitt ef ég hef reitt hv. þingmann til reiði með því, eins og hún orðaði það, að þvæla hér inn í umræðu um mál hæstv. fjármálaráðherra, umræðu um frumvarp um kolvetnisvinnslu, en það vill þannig til að þessi mál eru nátengd. Ef við ætlum okkur að fara að undirbúa olíuvinnslu á hafsvæði Íslands, í íslenskri lögsögu, skulum við gera það með þeim hætti að sómi geti verið að.

Ég þekki skýrsluna sem hv. þingmaður veifaði hér í ræðustóli. Ég fékk hana reyndar ekki í hendur fyrr en núna á þessum þingvetri og ég tel það allt í lagi því ég sá ekki fyrir mér að við værum að taka þetta mál hér í gegn um kolvetnisvinnsluna með einhverju hraði og hélt því að það yrði til þess nógur tími. En þegar maður fer að lesa þessi mál bæði í botn sjáum við dagsetninguna 15. janúar, að leyfin eigi að vera tilbúin til útboðs 15. janúar. Þegar þau leyfi verða tilbúin til útboðs hefði maður ætlað að lögin um kolvetnisvinnslu ættu líka að vera tilbúin til þess að við vissum á hvaða grundvelli leyfin eru gefin út. Þess vegna er hæstv. fjármálaráðherra kominn með þetta mál sem við nú ræðum inn í þingið og þess vegna er verið að vinna málin í þingnefndum sem varða hitt málið og þau þurfa auðvitað bæði að vera tilbúin á svipuðum tíma ef umhverfið í kringum þessa gríðarlegu iðnaðarvinnslu á að verða með þeim hætti að það sé hægt fyrir leyfisumsækjendur að vita í hvaða umhverfi þeim verður gert að starfa. Þannig að, afsakið, herra forseti, þessi mál eru nátengd og það er alveg eðlilegt að þau fari samferða í gegnum þingið.

Tímapressan sem er á þessu máli sem við hér ræðum hlýtur því að yfirfærast yfir á hitt málið. Ég tel mig því hafa verið fullum rétti með — eins og hv. þingmaður orðaði það — að þvæla (Forseti hringir.) því máli hér inn í umræðuna.