Skattlagning kolvetnisvinnslu

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:32:31 (1959)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:32]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er komið til umfjöllunar áhugavert mál sem er frumvarp til laga um skattlagningu kolvetnisvinnslu. Áður en ég ræði efnislega um frumvarpið vil ég láta það koma fram að ég get tekið undir með þeim sem talað hafa um að málið komi mjög seint fram og sé tekið hér á dagskrá með afbrigðum. Þingmenn hafa því ekki fengið tækifæri til þess að kynna sér efnisinnihaldið. Engu að síður held ég að ástæða sé til að fagna því sérstaklega að það virðist vera að ríkisstjórnarflokkarnir séu sammála um þetta mál og það er kannski í fyrsta skipti sem svo er í sambandi við atvinnumál þessarar þjóðar. Ástæða er til að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með það, (Gripið fram í.) að svo virðist vera, miðað við það að hæstv. iðnaðarráðherra mælti nýlega, eins og hér hefur komið fram, fyrir máli sem varðar kolvetnisvinnslu og er það til umfjöllunar í iðnaðarnefnd.

Eins og hér kemur fram var það á árinu 2001 að lög nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, voru samþykkt hér á Alþingi að frumkvæði iðnaðarráðherra. Það er því nokkur aðdragandi að því að við setjum þau lög sem frumvarpið kveður á um og reyndar er hægt að fara lengra aftur í tímann til að fara yfir sögu málsins. Því er ekki að neita að ég hef mikinn áhuga á þessu máli og hef haft það og snýr það að kjördæmi mínu, sem er Norðausturkjördæmi. Menn gera sér vonir um að þar geti skapast störf í tengslum við það að þarna geti hugsanlega fundist kolvetni, bæði olía og gas, jafnvel á hinu svokallaða Drekasvæði sem er norðaustur af landinu. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur haft stór orð um það að við verðum ríkasta þjóð í heimi þegar þetta hefur fundist allt saman og við skulum bara trúa því, þó að ég ætli kannski ekki að taka svo mikið upp í mig að rétt sé að vera svolítið bjartsýnn í sambandi við þetta allt saman.

Það mál sem hér er komið fram svo seint sem raun ber vitni snýst um skattlagninguna, sem sagt skattlagningu auk hinnar hefðbundnu. Þar sem ég hef getað kíkt í textann sýnist mér að ákveðin nefnd eigi að vera að störfum — sem er samt ekki ákveðið, sennilega fer það eftir því hvort einhver verðmæti finnast. Ef nefnd verður að störfum verður hún þriggja manna og fjármálaráðherra skipar hana og hún mun mánaðarlega ákveða viðmiðunarverð. Mér þætti gott ef hæstv. ráðherra mundi vilja útskýra þetta svolítið fyrir okkur hv. þingmönnum, t.d. hvernig þessi nefnd verður skipuð. Hún á að vera alveg sjálfstæð. Eru einhverjar tilnefningar í því eða er hún bara skipuð sisona af hæstv. ráðherra?

Komið hefur fram að ekki er algjör samstaða um það í landinu hvort nýta eigi þau verðmæti sem þarna kunna að vera. Eftir því sem ég skil t.d. formann Náttúruverndarsamtaka Íslands heyrist mér hann á móti því að nýta þessa auðlind þó að hún sé hugsanlega til staðar. Hann talar um að það samræmist ekki stefnu ríkisstjórnarinnar að fara í vinnslu kolvetnis við Íslandsstrendur og sjálfsagt því síður í landi. Hæstv. iðnaðarráðherra neitaði því hér í umræðu um daginn að það væri rétt hjá þessum ágæta formanni náttúruverndarsamtakanna að vinnsla kolvetnis samrýmdist ekki stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég vildi gjarnan fá að heyra hæstv. fjármálaráðherra láta þau orð falla hér líka. Mér fyndist það með ólíkindum ef einhver spurning er um það að þessi auðlind skuli nýtt ef þarna finnast jarðlög sem gefa verðmæti.

Vissulega er þetta allt saman á miklu dýpi og það er kostnaðarsamara en engu að síður trúi ég því að þetta sé mál sem við eigum að halda áfram að vinna að. Að því leyti til get ég fagnað því að þetta frumvarp sé fram komið en ítreka það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt að það kemur náttúrlega ákaflega seint inn í þingið. Það kemur seint þrátt fyrir að fjármálaráðuneytið sé vel skipað af starfsfólki. Samkvæmt svari sem ég fékk nú nýlega frá hæstv. forsætisráðherra eru sjö starfsmenn ráðnir tímabundið í ráðuneytið fyrir utan alla þá sem eru svo ráðnir á hefðbundinn hátt. Það er því umhugsunarefni að hæstv. ráðherra skuli ekki geta verið fyrr á ferðinni með þetta mál.