Skattlagning kolvetnisvinnslu

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:38:25 (1960)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir jákvæð viðbrögð gagnvart frumvarpinu. Hún spurði um tvö atriði. Hún spurði hvort það samrýmdist stefnu ríkisstjórnarinnar að vinna kolvetni og það gerir það, ella hefðu þau frumvörp sem hér er verið að fjalla um ekki verið flutt.

Hv. þingmaður spurði síðan sérstaklega um viðmiðunarverðsnefndina en eins og fram kemur í frumvarpinu er verð á kolvetni lagt til grundvallar útreikningi á gjöldum. Ástæðan fyrir því að sú leið er farin að nota viðmiðunarverð sem þessi nefnd ákveður er sú að það tíðkast talsvert í olíuheiminum að olíuvinnslufyrirtækin skipti við tengda aðila og því getur það haft áhrif á verðlagninguna. Þetta er til þess að tryggja að miðað sé við það verð sem tíðkast í heiminum á hverjum tíma. Gert er ráð fyrir því að settar verði nánari reglur um það hvernig nefndin vinnur en ekki er gert ráð fyrir neinum tilnefningum eins og fram kom hjá hv. þingmanni hvað þetta varðar. Enda má kannski segja að þetta sé tæknilegt atriði þar sem verið er að miða við það verð sem er í gangi í heiminum á hverjum tíma. Hins vegar er gert ráð fyrir því að þeir aðilar sem þarna eru hafi tiltekna þekkingu, eins og kemur fram í 6. gr., í lögfræði, hagfræði og kolvetnisvinnslu.