Skattlagning kolvetnisvinnslu

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:40:26 (1961)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég bað um orðið undir andsvari hv. formanns iðnaðarnefndar, Katrínar Júlíusdóttur, til að mótmæla þeim orðum hennar að hv. iðnaðarnefnd hafi haft þau mál sem hér voru rædd, um olíuvinnslu, rannsóknir eða leit að olíu á Drekasvæðinu, til umfjöllunar í nokkrar vikur. Það er einfaldlega rangt og ég vil að það komi skýrt fram í þessum ræðustól, (Gripið fram í.) hv. iðnaðarnefnd hefur ekki haft þetta mál til umfjöllunar í nokkrar vikur.

Það sem er rétt í þessu máli er, eins og fram kom hér áðan, að mælt var fyrir því máli sem um ræðir þann 21. nóvember sl. og var því vísað til hv. iðnaðarnefndar. Það er ömurlegt, vil ég segja, það vinnulag sem menn leggja hér upp með. Ekki einungis að verið sé að hrúga hér inn málum eins og gert hefur verið með því að boða þennan viðbótarfund hér með níu málum, öllum nema einu, á afbrigðum. Ekki er nóg með að afgreiða eigi þetta allt fyrir áramót heldur eru fjáraukalög og fjárlög ekki einu sinni komin hér inn í þingið til 2. umr. Eða á ég að segja: Ný fjárlög eru ekki einu sinni komin inn í þingið til umræðu. Það er því alveg ljóst að hversu mikið sem þingmenn vilja leggja sig fram og vinna í desember í nefndum og hér í þinginu þá er ekkert sem heitir eðlileg málsmeðferð eða vinnubrögð í boði ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar sem þarf að funda undir lögregluvernd þessa dagana. Það er staðan sem er uppi í samfélaginu.

Svo eru menn kallaðir hér til til þess að ræða skattlagningu kolvetnisvinnslu og taka það fyrir með afbrigðum, afgreiða það fyrir áramót, takk. Ég verð að segja eins og er og oft hefur komið hér fram í haust að þeir þingmenn sem eru nýir á þessum vinnustað, eins og sú sem hér stendur, hafa orðið æðitakmarkaða þolinmæði fyrir því vinnulagi sem viðgengist hefur. Ég verð að segja það hreint eins og er að þegar frumvarpið um kolvetnisstarfsemina kom til umræðu 21. nóvember sl. benti ég á hversu mikilvægt það væri að það mál kæmi fyrir umhverfisnefnd. Ef rétt hefði verið á málum haldið hefðu hv. iðnaðarnefnd, hv. umhverfisnefnd og hv. efnahags- og skattanefnd þurft að fara yfir þessi mál sameiginlega og gefa sér góðan tíma til að vinna hlutina saman, vegna þess að þetta er allt háð hvað öðru.

Álitamálin sem hér er verið að fjalla um varðandi mögulega skattlagningu á þessum iðnaði hanga saman við þá stefnu sem tekin verður um það hvernig við ætlum að gæta almennt hagsmuna eigendanna, almennings í landinu, eigenda auðlinda á hafsbotni, í þessu tilfelli, eða annarra auðlinda. Gæta þarf hagsmuna þeirra hvað varðar leyfisveitingarnar og framsal á nýtingu auðlindarinnar sem er til umfjöllunar í hv. iðnaðarnefnd. Einnig þarf að gæta að því hvaða áhrif rannsóknir og vinnsla á þessum efnum kann að hafa á lífríki og lífsmöguleika með ströndum og á nytjastofna okkar ef slys verður eða óhapp. Að auki þarf að gæta að því hvernig gjaldtöku skuli háttað á bæði rannsóknum og vinnslu og loks skattlagningu á það sem þarna kann að koma upp.

Ef eitthvert vinnulag væri af viti á hv. Alþingi ættu þessar nefndir að fá tíma til að setjast yfir hlutina og taka það í heild. Það verklag væri til sóma. Þetta er stórt mál, í því eru mörg álitaefni og ég vil ítreka og taka undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði hér áðan að við þurfum, Íslendingar, að muna mjög vel eftir ábyrgð okkar í umhverfismálum, ábyrgð okkar á lofthjúpi jarðar, þeirri sérstöðu sem við höfum til að draga úr hitahækkun í lofthjúpnum með því að nýta orkuauðlindir okkar í vatnsafli og jarðvarma með skynsömum hætti. Við eigum að leggja áherslu á endurnýtanlega orku og sjálfbæra þróun.

Það mál sem hér er til umræðu — ég er ekkert að segja að við séum komin að því að vinna olíu hér á landi á Drekasvæðinu en það er alveg ljóst að slík vinnsla fer ekki saman við sjálfbæra þróun og þau verkefni sem eru uppi og varða loftmengun og hitun í lofthjúpi jarðar.

Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls hérna en ég get ekki annað en notað tækifærið til að mótmæla því enn og aftur hvernig vinnulagi er háttað á hv. Alþingi. Ég ítreka það að ég tel að eins og málin eru lögð upp hafi engin þeirra nefnda sem hér hafa verið nefndar, ekki hv. iðnaðarnefnd, ekki hv. umhverfisnefnd og ekki heldur hv. efnahags- og skattanefnd, nægilegan tíma til að fara yfir þessi mál, ekki bara vegna þess hversu seint þau eru fram komin heldur líka vegna annarra verkefna og einkanlega fjárlagafrumvarps og fjáraukalagafrumvarps sem er ekki komið fram.