Hugsanleg lögsókn gegn Bretum -- ummæli þingmanns

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 10:34:43 (2150)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini orðum mínum til hv. formanns utanríkismálanefndar, Bjarna Benediktssonar, þegar ég kveð mér hljóðs til að spyrjast fyrir um hvort það sé rétt sem heyrist að ríkisstjórnin haldi illa á málum er varða hugsanlega lögsókn Íslands gagnvart Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaga gagnvart íslensku fyrirtæki, Landsbanka Íslands, og vegna yfirtöku breskra stjórnvalda á íslenskum banka í eigu Kaupþings, Singer & Friedlander.

Forsætisráðherra Íslands hefur sagt að beiting hryðjuverkalaga gegn Íslendingum sé ófyrirgefanleg. Hann hefur einnig sagt að réttarstaða Íslands gagnvart breskum stjórnvöldum verði könnuð. Ríkisstjórnin réð lögmannsstofuna Lovells, eina af helstu lögmannsstofum Lundúnaborgar, til verksins. Nú hefur komið fram að lögmaður hins breska lögfræðifyrirtækis fær ekki gögn frá íslenskum stjórnvöldum eða réttara sagt skilanefnd og frestur rennur út eftir þrjár vikur til að hefja málsókn, þ.e. eftir 7. janúar verður málið í algjöru uppnámi. Svo virðist sem íslensk stjórnvöld telji að hluthafarnir, kröfuhafarnir, geti farið í mál við breska ríkið en vegna þess að þeir eru síðastir í röð kröfuhafa eru ekki líkur á því. Þetta er ekki eingöngu, hæstv. forseti, spurning um peninga heldur mannorð þjóðarinnar sem því miður hefur beðið mikinn hnekki. Mín skoðun er sú að það sé Kaupþing sem eigi að sækja málið en bæði pólitískan stuðning og fjármagn þarf til þess að af því geti orðið og ekki þarf að taka fram að Kaupþing er í eigu ríkisins.

Hæstv. forseti. Bretar beittu ofbeldi þegar þeir beittu hryðjuverkalögum til að frysta eignir íslenskra fyrirtækja. Á að láta þar við sitja? Á ekki að láta dómstóla kveða upp úr um það hvort um löglegan gjörning var að ræða?