Hugsanleg lögsókn gegn Bretum -- ummæli þingmanns

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 10:40:37 (2153)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé ósköp einfalt að tíminn er að hlaupa frá okkur. Þetta mál hefur ekki verið unnið af fullum krafti heldur þvert á móti hættulega seint. Ætlunin var auðvitað að fyrst kæmu fram lögfræðileg álit, og hefðu átt að liggja fyrir nú þegar, um það hvernig málsaðstæður væru og hverjar líkur væru á því að koma mætti máli fyrir og eftir atvikum vinna það. Slík lögfræðileg álit eða greinargerðir liggja ekki fyrir þannig að hægt sé að taka ákvörðun um málshöfðunina sjálfa.

Málin eru tvíþætt, annars vegar er það kyrrsetning eða yfirtaka Kaupþings og hins vegar frysting eigna Landsbankans á grundvelli hryðjuverkalaga. Ég er orðinn þeirrar skoðunar, eftir að hafa reynt að fara yfir gögn í þessum efnum og tala við lögfræðinga, að möguleikar ríkisins til að koma máli sem slíku fyrir dómstóla séu afar takmarkaðir og óljóst um það hvort slík leið er yfirleitt fær hvort sem það væri þá Haag-dómstóllinn eða Mannréttindadómstóll Evrópu, eftir dúk og disk og þegar önnur réttarúrræði væru fullreynd.

Það sem þarf að gerast og á að gerast er að Kaupþing höfði mál vegna kyrrsetningar eða yfirtöku sinnar og Landsbankinn verður að höfða málið vegna beitingar hryðjuverkalaganna, hann er aðili að því máli. Það eru þrjár vikur til stefnu í hvoru tilviki um sig til að láta reyna á lögmæti aðgerðanna fyrir breskum dómstólum eins og lög í landi þar eru. Þetta er ekkert flókið og það þarf ekkert að þvæla þessi mál. Annaðhvort klúðrar ríkisstjórnin þessu eins og öðru eða hún stendur í stykkinu og sér til þess að bæði málin verði höfðuð fyrir 7. janúar. Annað er stórkostleg vanræksla hvað það varðar að gæta hagsmuna Íslands. Þetta snýst ekki bara um það að líkur séu á því að vinna þessi mál heldur að höfða þau og láta bresk stjórnvöld finna fyrir því. Það gæti haft jákvæð áhrif á samningsstöðuna í Icesave-deilunni og skapað okkur stöðu til að koma málflutningi okkar á framfæri og rétta eitthvað af okkar rykti gagnvart (Forseti hringir.) umheiminum og veitir nú víst ekki af eins og búið er að fara með vort mannorð.