Hugsanleg lögsókn gegn Bretum -- ummæli þingmanns

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 10:49:58 (2157)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar og varaformanni fyrir svörin en vissulega sögðu þau okkur ákaflega lítið um það hvað verður gert. Tíminn er svo sannarlega að renna út, það eru jól og áramót fram undan og þá er oft lítið um að stór mál séu til umfjöllunar.

Það kom þó fram að stjórnvöld gera sér grein fyrir tímafrestum og það er gott að vita það. Varaformaðurinn sagði að það væri verið að kanna alla möguleika. Mér finnst allt bera þess merki að ekki sé unnið af fullri alvöru og einurð í þessu stóra máli. Það sem við þurfum að fá svör við núna er fyrst og fremst hvort þetta sé löglegur gjörningur eða ekki. Síðan er seinni tíma mál hvort farið verður í skaðabótamál og hvað kemur út úr því öllu saman.

Þetta er svo mikið spurning um ímynd Íslands. Voru þetta löglegar aðgerðir gagnvart Íslandi eða ekki? Talandi um ímynd Íslands er það rétt sem hér hefur komið fram, það eru aðallega sjálfboðaliðar sem hafa skipað sér í sveit innan In defence hópsins sem hafa staðið í því að reyna að bæta ímynd Íslands og halda uppi málstað Íslands gagnvart öðrum þjóðum. Það hefur hæstv. ríkisstjórn ekki gert og ef hv. formaður utanríkismálanefndar kemur hér upp aftur væri forvitnilegt ef hann gæti greint hv. Alþingi frá því hvað verið er að vinna í þeim efnum af hálfu íslenskra stjórnvalda.